Rúmlega 47 þúsund Íslendingar eru búsettir erlendis og 44 þúsund erlendir ríkisborgarar eru búsettir hér á landi, að því er fram kemur í yfirliti Þjóðskrár yfir skráningu einstaklinga. Þá var fjöldi einstaklinga sem búsettir voru á Íslandi 356.789 þann 1. desember 2018.
Norðurlöndin eru enn vinsælasti áfangastaður Íslendinga og eru um 62% allra íslenskra ríkisborgara sem búa erlendis búsettir þar. Tæplega 11 þúsund Íslendingar eru búsettir í Danmörku, 9,5 þúsund í Noregi og 8,7 þúsund í Svíþjóð.
Næst á eftir þessum ríkjum eru Bandaríkin og eru 6.492 einstaklingar með íslenskt ríkisfang búsettir þar. Þá eru rúmlega tvö þúsund búsettir í Bretlandi og um sextán hundruð í Þýskalandi, en mun færri annars staðar.
Af þeim 44 þúsund erlendu ríkisborgurum sem búsettir eru hér á landi eru 42% með pólskt ríkisfang eða 19 þúsund einstaklingar. Næst á eftir eru Litháar og telja þeir um fjögur þúsund.
Lettar eru tæplega tvö þúsund hér á landi, Rúmenar um fimmtán hundruð, Þjóðverjar tæplega þrettán hundruð, Portúgalar um tólf hundruð og Bretar eitt þúsund.
Spænskir ríkisborgarar eru rétt innan við þúsund manns, Danir um níu hundruð og Filippseyingar tæplega níu hundruð.
Um 25% allra erlendra ríkisborgara hér á landi, eða 11.250, eru sagðir frá öðrum löndum.