Ef WOW air hverfur af flugmarkaði gæti það leitt til þess að landsframleiðsla myndi dragast saman um 0,9 til 2,7 prósent á einu ári.
Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem ráðgjafarfyrirtækið Reykjavík Economics vann að beiðni flugfélagsins um efnahagsleg áhrif þess á íslenskan þjóðarbúskap.
Fréttablaðið greinir frá þessu.
Rannsóknin sýnir einnig að brotthvarf WOW air yrði til þess að gengi krónunnar veiktist sem kæmi svo fram í hækkun innflutningsverðs og aukinni verðbólgu. Þúsundir manna myndu missa vinnuna og afkoma hótela, veitingahúsa og fleiri fyrirtækja í ferðaþjónustu og tengdum greinum rýrnaði.
Fram kemur í skýrslunni að brotthvarf WOW air af markaði verði ekki endilega til þess að önnur flugfélög ákveði að fljúga yfir Atlantshaf með millilendingu á Keflavíkurflugvelli. Hugsanlega myndu þau fljúga beint á milli Evrópu og Ameríku án þess að koma við hér á landi.
Útreikningar skýrsluhöfundanna sýna að skatttekjur vegna farþega WOW air hafi numið um 12 milljörðum króna árið 2017, sem er um 24 prósent af beinum skatttekjum ársins vegna erlendra ferðamanna.
Sviðsmyndagreining Reykjavík Economics miðar við að á bilinu 5 til 15 prósent þeirra sem starfa innan einkennandi atvinnugreina ferðaþjónustunnar missi vinnuna við brotthvarf WOW air af flugmarkaði. Sé gert ráð fyrir tíu prósenta atvinnuleysi í greininni þýði það að um 2.900 manns missi vinnuna.