„Búum okkur undir hið versta“

Jóhannes Þór segir að ekki verði hlaupið að því að …
Jóhannes Þór segir að ekki verði hlaupið að því að fylla í skarð WOW fari allt á versta veg. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er grafalvarleg staða. Við verðum að bíða og sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um viðræðuslit WOW air og Icelandair.

Jóhannes Þór segir WOW air mjög mikilvægt fyrirtæki fyrir íslenska ferðaþjónustu, rétt eins og Icelandair, og að ekki verði hlaupið að því að fylla í skarð félagsins fari allt á versta veg. 

„Þessi tvö flugfélög bera meginhluta ferðamanna til landsins. Það hefur legið ljóst fyrir lengi að það eru mikil vandræði í rekstri WOW, og það er mjög slæmt fyrir ferðaþjónustuna sem hefur verið í mikilli óvissu vegna þessa um framtíðina.“

WOW air er í mjög erfiðri stöðu.
WOW air er í mjög erfiðri stöðu. mbl.is/Eggert

„Við náttúrulega vonumst til þess að úr þessu leysist en því er ekki að neita að eftir að slitnaði upp úr viðræðum í dag virðist staðan mun alvarlegri en við vonuðumst til. Það hefur komið fram í fréttum að það sé verið að leita fjármagns til þess að koma í veg fyrir gjaldþrot og ég geri ráð fyrir því að það verði í gangi fram á morgundaginn. Svo verðum við að sjá hvernig það gengur, en það liggur fyrir að það er flókið mál á þessum tímapunkti,“ segir Jóhannes Þór.

Verði WOW air gjaldþrota og hverfi af flugmarkaði hafa greiningar sýnt að störfum í ferðaþjónustu geti fækkað um allt að 15% og landsframleiðsla dregist saman um allt að 2,7%.

Sveigjanleiki flugfélaga minni vegna Boeing-vandræða

Jóhannes Þór segir að þrátt fyrir að önnur flugfélög væru öll af vilja gerð til þess að fylla upp í skarð WOW air sé tæplega hægt að bregðast við á svo skömmum tíma fyrir háönn ferðamanna í sumar. „Sveigjanleiki flugfélaga hefur líka minnkað vegna vandræðanna með Boeing-vélarnar, svo þetta verður jafnvel enn flóknara en ella.“

„Með mjög mikilli fækkun ferðamanna fækkar tekjumöguleikum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki um allt land og með því þarf að hraða á þessum hagræðingarfasa sem er þegar hafinn. Það þýðir að fólki verður sagt upp, það er það eina sem þessi fyrirtæki geta gert. Við bara horfum fram í óvissuna, vonum hið besta en búum okkur undir hið versta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert