Icelandair slítur viðræðum við WOW air

Ekkert verður af aðkomu Icelandair að WOW air.
Ekkert verður af aðkomu Icelandair að WOW air. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Icelandair hefur slitið viðræðum um mögulega aðkomu að rekstri WOW air. Þetta var tilkynnt í gegnum Kauphöll rétt í þessu. Í stuttri tilkynningu segir:

„Icelandair hefur slitið viðræðum um mögulega aðkomu að rekstri WOW air. Þetta var tilkynnt í gegnum Kauphöll rétt í þessu.“

Verulega hefur reynt á Skúla Mogensen síðustu mánuði en hann …
Verulega hefur reynt á Skúla Mogensen síðustu mánuði en hann hefur átt í sleitulausum viðræðum við Icelandair og Indigo Partners um mögulega aðkomu að rekstri WOW air frá byrjun nóvembermánaðar. Eggert Jóhannesson

Á fimmtudagskvöldið síðasta var tilkynnt um að slitnað hefði upp úr viðræðum WOW air og bandaríska fjárfestingarsjóðsins Indigo Partners um mögulega aðkomu sjóðsins að fyrirtækinu. Samhliða því var tilkynnt að WOW air og Icelandair Group hefðu hafið viðræður um mögulega aðkomu Icelandair að WOW air en félögin slitu viðræðum í lok nóvember í sömu veru eftir mánaðarlanga samningalotu.

WOW air hefur glímt við alvarlega rekstrarerfiðleika síðustu misseri og hefur m.a. verið greint frá því að fyrirtækið sé í vanskilum með lífeyrisiðgjöld starfsfólks. Þá greindi Morgunblaðið frá því í byrjun mars að dráttur hefði orðið á launagreiðslum vegna febrúarmánaðar. Greiðslurnar bárust degi síðar en venjulega.

Í tilkynningu sem forsætisráðuneytið sendi frá sér á fimmtudagskvöldið sagði að stjórnvöld myndu fylgjast náið með framvindu viðræðnanna og að ríkisstjórnin „bindur vonir við að viðræður félaganna muni skila farsælli niðurstöðu“.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert