Tillögur greiði fyrir kjarasamningum

Forsætisráðherra segir ekki hafa komið til skoðunar að ríkið komi …
Forsætisráðherra segir ekki hafa komið til skoðunar að ríkið komi að málum Wow air með beinum hætti. Einnig kom fram í máli hennar að óformlegar viðræður eru við aðila vinnumarkaðarins vegna kjaraviðræðna. mbl.is/Eggert

„Við höfum áfram haft í óformlegum samræðum við verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur og viljum, og það auðvitað birtist í fjármálaáætluninni, sem Bjarni kynnti í gær, skýrar fyrirætlanir okkar um aðgerðir sem við hugsum til þess að greiða fyrir kjarasamningum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í þættinum Þingvellir á K100 í morgun um stöðuna á vinnumarkaði.

Vísaði forsætisráðherra til tillagna sem þegar hafa verið kynntar, en tók sérstaklega fram lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði, sem hún sagði gríðarlega kjarabót.

Sagði hún það viðvarandi viðfangsefni að vilja annars vegar greiða fyrir kjarasamningum og hins vegar vilja ekki stíga inn í viðræður sem eiga sér stað við samningaborðið.

Ríkið komi ekki að málum Wow

„Það hefur ekki verið okkar niðurstaða innan ríkisstjórnarinnar,“ svaraði forsætisráðherra, spurð hvort komið hafi til greina að ríkið komi að málum Wow air með beinum hætti. „Við lítum ekki á það sem okkar hlutverk að koma með beinan ríkisstuðning.“

Hún sagði vissulega að allt sem ríkið geri á öðrum sviðum geti haft áhrif, en ítrekaði að ríkisstuðningur til þess að leysa mál flugfélagsins hafi ekki komið til skoðunar.

Ákvæði orkupakkans eigi ekki við

Forsætisráðherra sagðist skilja vel áhyggjur þeirra sem gagnrýnt hafa innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins, ekki síst þar sem hennar flokkur hafi á sínum tíma gert athugasemdir við innleiðingu fyrsta og annars orkupakka ESB.

„Það sem var kynnt hér fyrir helgi snýst í raun og veru um það að á meðan Ísland er ekki tengt inn á þetta orkukerfi Evrópu, eigi ekki við ákvæði þriðja orkupakkans,“ að sögn Katrínar sem jafnframt benti á að tenging við orkukerfi Evrópu yrði ekki komið á nema með samþykki Alþingis.

Ríkisstjórnin hefur unnið að því að efla hagsmunagæslu gagnvart EES-samstarfinu til muna, að sögn Katrínar.

Myndun ríkisstjórnarinnar ekki svik

„Ég gat aldrei fallist á það að þetta væru svik að fara í þessa stjórnarmyndun,“ sagði Katrín um þá gagnrýni sem hún hlaut fyrir að ganga til viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn um myndun ríkisstjórnar í kjölfar kosninganna 2017.

„Ég sagði það skýrt í aðdraganda kosninga að ég vildi ekki útiloka neinn flokk frá stjórnarsamstarfi. Ég taldi það mjög mikilvægt að fyrst og fremst væru flokkarnir með skýr markmið um það hvað þeir vildu sjá koma út úr viðræðum, en ekki snúast um einhver bandalög eða útiloka einhvern fyrir fram,“ sagði hún.

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert

Forsætisráðherra sagði jafnframt að kosningabandalag sem myndað var milli stjórnarandstöðuflokka fyrir kosningarnar 2016 hafi skapað mikla spennu hvað samskipti vörðuðu. „Þannig að ég var mjög eindregin í því að fyrir kosningarnar 2017 yrðum við að horfa öðruvísi á þetta mál.“

Hollt að starfa með andstæðingum

„Við höfum staðið við það sem við sögðum, við sögðumst reiðubúin til þess að vinna með hverjum sem er að tilteknum markmiðum og að mikilvægasta markmiðið væri að ráðast í uppbyggingu samfélagslegra innviða og takast á við áskoranir sem við höfðum ekki verið að takast á við vegna tíðra kosninga,“ sagði Katrín og vísaði sérstaklega til loftslagsmálanna.

Það getur verið hollt fyrir stjórnmálamenn að þurfa að starfa með fólki sem er þeim ósammála, ekki síst á tímum sem vaxandi aðskilnaður er milli fylkinga í stjórnmálum í heiminum, að sögn forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert