„Við erum búin að vera að óska eftir því að Samtök atvinnulífsins leggi fram tölur varðandi launaliðinn svo við getum fikrað okkur áfram. Það kom fram hjá SA á föstudaginn að þeir treysti sér ekki til þess á meðan þessi óvissa er uppi hjá WOW air.“
Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við mbl.is en fundi í kjaradeilu félagsins, Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Landsambands íslenskra verzlunarmanna og Framsýnar við Samtök atvinnulífsins, sem hófst klukkan 10:00 í morgun og átti að standa til klukkan 16:00, var slitið um tvöleytið.
„Síðan kom þetta aftur fram á fundinum í dag og þar af leiðandi sáum við ekki ástæðu til þess að sitja lengur yfir þessu. Þetta er ákveðin grunnforsenda fyrir því að við getum fikrað okkur áfram. Þar af leiðandi er staðan með þessum hætti,“ segir Vilhjálmur.
Boðaður hefur verið annar fundur hjá ríkissáttasemjara klukkan 10:00 í fyrramálið. „Við lögðum mikla áherslu á það að ef við ættum að geta komist eitthvað áfram verði menn að gera svo vel að leggja fram einhverjar tölur varðandi launaliðinn því öðruvísi nálgumst við ekki lausn á þessu viðfangsefni. Það er alveg ljóst.“
Spurður hvernig viðræðurnar hafi gengið að undanförnu segir Vilhjálmur að fundur deiluaðila á fimmtudaginn hafi verið alveg prýðilegur. „Síðan vorum við að vinna að þessu um helgina en við höfum átt von á því að sjá einhverjar tölur frá þeim en það hefur dregist þannig að þess vegna erum við á þessum stað núna.“
Það sé ekki gott að ekki fáist fram tölur varðandi launaliðinn en aðspurður segir Vilhjálmur að það sé engu að síður vissulega gott þegar verið sé að tala saman. „Meðan menn eru að tala saman þá er einhver von.“