„Er ekki ástæða til þess að beina þessum þriðja orkupakka til þjóðarinnar og gefa henni kost á að svara hvort hún vilji hann eða ekki?“ spurði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, Iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á Alþingi í dag undir óundirbúnum fyrirspurnum.
Sagði Inga sérstaklega ástæðu til þess að skoða þann möguleika í ljósi þess að þjóðin hafi ekki verið spurð þegar samþykkt var aðildin að EES. Jafnframt að það hugnaðist henni ekki að það yrði geðþóttamál hvers meirihluta sem væri við völd á hverjum tíma hvort lagður yrði raforkustrengur til Evrópu.
„Það er ekki í mínum huga hægt að bera saman það hvort á sínum tíma hafi átt að bera EES-samningin undir þjóðina eða þennan þriðja orkupakka, sem er tæknilegt framhald af fyrsta og öðrum og felur ekki í sér neinar grundvallarbreytingar á því fyrirkomulagi sem við höfum í dag,“ svaraði Þórdís Kolbrún.
Þá sagði hún einnig að hún hafi ásamt utanríkisráðherra unnið að málinu með það að markmiði að koma til móts við gagnrýni sem málið hefur hlotið.
Kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar að í hennar frumvarpi um innleiðingu orkupakkans væri ákvæði sem felur í sér að ekki yrði lagður sæstrengur nema með samþykki Alþingis. „Það er auðvitað þannig að á fjögurra ára fresti kjósum við til þings, stundum oftar, og meirihluti á hverjum tíma getur tekið ýmsar ákvarðanir. Meðal annars um lagningu sæstrengs.“
„Ég hef engin völd til þess að banna kjörnum fulltrúum til framtíðar að taka slíkar ákvarðanir,“ sagði hún og bætti við að Alþingi sé falið vald af almenningi í gegnum kosningar. „Okkur er falið að framfylgja vilja þeirra í þessu og þess vegna sé ég ekki ástæðu tilefni til þess að fara með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Inga sagðist ekki skilja svar ráðherrans. „Þó er eitt alveg víst, að það er ekki þjóðarinnar að segja síðasta orðið um þetta.“ Bætti hún við að málið muni varða þjóðina um alla eilífð og spurði hvort það væri mat ráðherrans að það væri valdaframsal falið í framsali dómsvalds til orkustofnunar Evrópu með aðild að innri orkumarkaði Evrópu.
Þórdís sagðist ekki skilja spurningu þingmannsins. „Nei. Við erum ekki að framselja neitt dómsvald.“ Jafnframt væri valdaframsal sem felst í samþykkt málsins innan þeirra marka sem leyfileg eru og vísaði hún til álits þeirra sérfræðinga sem komið hafa að málinu.