„Erum að vinna þetta mjög hratt“

Skúli Mogensen segir að hann hafi gaman af því sem …
Skúli Mogensen segir að hann hafi gaman af því sem hann er að gera og að hann hafi fulla trú á WOW air. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segir að mikil vinna sé fram undan hjá félaginu en miklu máli skipti að hlutirnir gerist hratt næstu daga. „Við erum að vinna með öllum aðilum, kröfuhöfum og stjórnvöldum í að tryggja langtímafjármögnun félagsins. Þeirri vinnu miðar vel áfram,“ sagði Skúli í samtali við RÚV fyrr í dag.

Fjár­fest­ar sem tóku þátt í skulda­bréfa­út­boði WOW air í sept­em­ber síðastliðnum hafa með aukn­um meiri­hluta at­kvæða ákveðið að taka fé­lagið yfir og breyta kröf­um sín­um í hluta­fé. Ákvörðunin er tek­in á grund­velli heim­ild­ar sem virkjaðist í gær þegar ljóst var að WOW air myndi ekki standa við greiðslu ríf­lega 150 millj­óna króna vaxta­greiðslu af skulda­bréfa­flokkn­um.

Skúli segir í samtali við RÚV að staða WOW air sé ágæt eftir tíðindi dagsins. „Við erum að vinna þetta mjög hratt og það að ná þessum kröfuhöfum saman á þetta skömmum tíma, á nokkrum dögum, er stór og mjög jákvæður áfangi,“ segir Skúli.

Styrkur að hafa marga hluthafa

Hann segir jafnframt að líklega hefði umræða um að fá skuldabréfahafa í félaginu til að breyta skuldum sínum í hlutafé átt að hefjast fyrr. Hann segir stöðu WOW air vera mjög þrönga og það liggi ljóst fyrir að nú þurfi að vinna hlutina hratt. Með ákvörðun skuldabréfaeigenda í dag að samþykkja að breyta kröfum sínum í hlutafé sé gerlegt að koma rekstri WOW air á rétta braut.

Með ákvörðun fjár­fest­anna miss­ir eign­ar­halds­fé­lagið Tít­an Fjár­fest­inga­fé­lag ehf. sem að fullu leyti er í eigu Skúla Mo­gensen, yf­ir­ráð yfir fé­lag­inu. Skúli verður eft­ir sem áður hlut­hafi í WOW air þar sem hann keypti um 11% þeirra bréfa sem boðin voru til kaups.

Skúli sagði í samtali við RÚV að hann hafi gaman af því sem hann er að gera og að hann hafi fulla trú á félaginu. Þá segir hann það styrk fyrir félagið að hafa marga hluthafa að félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert