Mestar áhyggjur af starfsfólkinu

Formaður VR telur að það gæti haft áhrif til skemmri …
Formaður VR telur að það gæti haft áhrif til skemmri tíma ef allt fer á versta veg hjá WOW air en til lengri tíma verði áhrifin takmörkuð. mbl.is/Eggert

„Tvennum sögum fer nú af því hvaða afleiðingar þetta gæti haft fyrir efnahagslífið. Við höfum bæði heyrt ákveðnar dómsdagsspár og síðan höfum við líka heyrt það að þetta hefði mjög takmörkuð og jafnvel lítil sem engin áhrif.“ Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is spurður um það hvaða áhrif hann telur að það gæti haft á efnahagslífið ef allt færi á versta veg fyrir flugfélagið WOW air og félagið yrði gjaldþrota.

„Ég held að nú þegar hafi hluti af þessu komið fram. Ég hugsa til dæmis að bókanir hafi ekki verið miklar undanfarin misseri út af stöðunni. Það sem ég hef mestar áhyggjur af núna er starfsfólkið, sá fjöldi starfsmanna sem vinnur hjá félaginu og gæti misst vinnuna. Það eru fyrst og fremst mínar áhyggjur núna,“ segir Ragnar enn fremur. Hann segist telja að ferðaþjónustan og afleidd störf sem skapast hafi í kringum hana muni jafna sig.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Eggert

„Ef það er spurn eftir því að koma til landsins þá munu þau sextán flugfélög sem fljúga til landsins í sumar, sem og Icelandair, standa undir þeirri eftirspurn. Þetta gæti kannski til skamms tíma haft einhver áhrif en til lengri tíma, ef það er spurn eftir því að koma til landsins, þá hef ég ekki áhyggjur af því önnur flugfélög muni ekki anna þeirri eftirspurn og gera það fljótt og vel,“ segir Ragnar og ítrekar áhyggjur sínar af starfsfólkinu.

„Við höfum verið að undirbúa og erum með ákveðna viðbragðsáætlun til þess að taka við starfsfólki WOW air sem er félagsmenn hjá okkur ef illa fer og aðstoða það fólk eins vel og kostur er. Síðan auðvitað að klára þessa kjarasamninga. Ég er persónulega þeirrar skoðunar að staða WOW air hafi takmörkuð áhrif á það að við þurfum að klára kjarasamning. Það verkefni hleypur ekki frá okkur,“ segir Ragnar að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert