Öryggi farþega háð fiskiflotanum

Ekki er hægt að fullyrða um að hægt sé að …
Ekki er hægt að fullyrða um að hægt sé að tryggja öryggi allra þeirra farþega sem koma hingað til lands með skemmtiferðaskipum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það er bara ekki raunverulegur valkostur að segja að við munum ráða við svona stórt verkefni. Menn munu þurfa að miða sín viðbrögð við þá getu sem er til staðar,“ svarar Jón Gunnarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, þegar blaðamaður mbl.is spyr hvort hægt sé að tryggja öryggi farþega skemmtiferðaskipa ef sambærilegt tilvik og í tilfelli Viking Sky myndi gerast við Íslandsstrendur.

„Veistu ég held að það geti enginn, ekki einu sinni Norðmenn gátu það í þessu tilfelli,“ bætir Jón við og bendir á að um borð í Viking Sky hafi verið um 1.300 farþegar og gekk erfiðlega að koma farþegum frá borði þrátt fyrir að áhafnir fimm þyrlna hafi unnið hörðum höndum.

„Það er auðvitað ljóst að menn í okkar viðbragðsgeira hafa verið að horfa á þetta á undanförnum árum og haldið æfingar sem að þessu snúa, en […] þrátt fyrir að Norðmenn séu mun öflugri en við þá eiga þeir erfitt með að fást við svona,“ útskýrir hann.

Jón Gunnarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar.
Jón Gunnarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Dropi í hafið

„Það er bara staðan að við eigum bara eitt almennilegt varðskip sem getur brugðist við og það er verið að skoða hvort við getum náð að láta byggja annað varðskip, hvort sem það verði jafn stórt [og Þór] eða ekki. Svo þurfa menn bara að horfa til öflugs fiskiskipaflota, togara og annarra sem yrðu að bregðast við ef þyrfti að tæma svona skip,“ segir Jón.

Auk fiskiskipa bendir hann á mikilvægi sjóbjörgunarsveita Landsbjargar sem hann segir vera að endurnýja björgunarskipin sín. „En það er bara dropi í hafið í stóra samhenginu.“

Þá segir Jón erfiðasta viðfangsefnið í sambandi við skemmtiferðaskip ef eldur kvikni um borð og til þess kæmi að koma þyrfti öllum farþegum og áhöfn frá borði í flýti.

Ljóst að endurnýja þarf varðskip

Búist er við að 122 þúsund farþegar komi til Íslands með skemmtiferðaskipum á þessu ári. Stærstu skipin sem koma hingað til lands eru með um 2.500 til 3.000 farþega að sögn Jóns sem tekur sérstaklega fram að um er að ræða mun fleiri einstaklinga en voru um borð Viking Sky.

„Við þurfum auðvitað að horfa til þess sem við getum gert, en þó að við værum með tvö eða þrjú stór varðskip og sjö eða átta þyrlur myndi það ekki duga til. Þannig að það er spurning hvað við ráðum við að gera sem svona fámenn þjóð,“ svarar nefndarformaðurinn spurður hvort aukin umferð þessara skipa við Ísland kalli á frekari fjárfestingu í björgunarinnviðum.

Hann telur ljóst að það þurfi að skoða með hvaða hætti það verði hægt að endurnýja varðskipin Tý og Ægi.

Auka samstarf

Í ljósi takmarkaðrar viðbragðsgetu Íslendinga vegna smæðar er grundvallaratriði að leita leiða til þess að efla leitar- og björgunarsamstarf við aðrar þjóðir, að mati Jóns.

Þá segir hann koma til greina að skoða hvort hægt sé að stofna til alþjóðlegrar björgunarmiðstöðvar á Íslandi vegna aukinnar skipaumferðar. Vísar hann meðal annars til þess að fleiri skip sigla nú með farþega meðfram Grænlandi þar sem björgunarinnviðir eru mun veikari en hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert