„Við teljum að það sé kominn grundvöllur til þess að hefja viðræður eða gera alvarlega atlögu að því að klára kjarasamning,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, þegar hann er spurður af hverju verkfalli sem átti að hefjast á miðnætti hafi verið aflýst.
Var það niðurstaðan eftir rúmlega fjögurra klukkustunda fund VR, Eflingar, VLFA, VLFG, LÍV og Framsýnar með Samtökum atvinnulífsins hjá sáttasemjara.
Ragnar segist ekki geta tjáð sig um það sem fór fram á fundinum að öðru leyti en því að hann hafi verið búinn að lýsa því yfir að ekki kæmi til greina að fresta eða aflýsa verkföllum öðruvísi en að eitthvað kæmi á borðið sem gæti orðið grunnur að lausn kjaradeilunnar.
„Við teljum að það sé kominn grundvöllur til að gera raunverulega atlögu að því að klára þetta.“
Næstu dagar munu fara í það að reyna að landa kjarasamningi. „Ég get ekki sagt á þessu stigi hvort það takist eða ekki,“ segir Ragnar og bætir við að fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir næsta þriðjudag standi óbreyttar. Hins vegar ætli menn að nýta næstu daga til hins ýtrasta til að klára málin.
„Við hefðum ekki farið þessa leið ef við hefðum ekki séð alla vega til sólar,“ segir Ragnar en næsti fundur hjá sáttasemjara verður klukkan 13.00 á morgun.
„Þeir lögðu fram hugmyndir að því hvernig við getum nálgast þetta viðfangsefni. Eftir ítarlega yfirlegu og athugun á atriðum sem við vildum skerpa á varð niðurstaðan að gera þessa atlögu að samningum,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Hann segir að til þess að geta hafið þetta samtal af fullum krafti þyrfti að aflýsa þessu tveggja daga verkfalli.
Spurður hvort hann sé bjartsýnn á samning í þessari lotu segir Vilhjálmur: „Ég er glaður í hjarta mér að við séum að fara af stað í þessa vegferð. Geri mér grein fyrir því að ábyrgð okkar allra er mjög mikil. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn þar til ég þarf að vera svartsýnn. Tíminn leiðir í ljós hvert þetta leiðir okkur.“