„Það má segja að jöklarnir eru fyrst og fremst stórglæsilegt landslagsfyrirbrigði sem verður mikill sjónarsviptir að,“ segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur og sérfræðingur í jöklum, en hann flutti erindi í gær í Háskólabíói ásamt Ragnari Axelssyni, RAX, ljósmyndara Morgunblaðsins, og Tómasi Guðbjartssyni lækni um framtíð jöklanna.
Erindið var hluti af dagskrá 66°N sem bar heitið „Jökullinn gefur eftir“. Auk þremenninganna fluttu þau Rakel Garðarsdóttir og Andri Snær Magnason erindi á fundinum.
Oddur segir jöklana vera áhugavert náttúrufyrirbrigði, sem geymi magnaða sögu. „Þeir varðveita alla Íslandssöguna, síðastliðin þúsund ár að minnsta kosti, og sú saga er að fara forgörðum og er að hverfa fyrir augunum á okkur. Sú saga mun ekki finnast aftur ef við náum ekki í hana áður en þeir bráðna,“ segir Oddur.
Hann er ómyrkur í máli í umfjöllun um framtíð jöklanna í Morgublaðinu í dag. „Ég tel að það verði ekki komið í veg fyrir það að íslensku jöklarnir bráðni eða svo gott sem. Það er eiginlega sama til hvaða ráða verður gripið, það er ekki hægt að koma í veg fyrir það,“ segir Oddur, sem áætlar að jöklarnir verði horfnir á innan við næstu tvöhundruð árum.