Bjarki Þór Birgisson, 12 ára lestrarhestur í Hafnarfirði, hefur lesið allar bækur sem hann hefur komist yfir og nú er svo komið að Fríða Björk Sandholt, móðir hans, er ráðþrota. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst og margir hafa svarað ákalli hennar um hugmyndir á Fésbókinni.
Þar á meðal Ævar Þór Benediktsson, Ævar vísindamaður, sem hefur lofað að skrifa hraðar svo Bjarki hafi eitthvað að lesa.
Fundið hefur verið að því að börn lesi ekki nóg en óvarlegt er að alhæfa í því efni sem öðru. Bjarki byrjaði að lesa fimm ára og segist lesa tvær til fjórar bækur á viku. „Ævintýrabækur eru skemmtilegastar,“ segir kappinn, sem æfir fótbolta fjórum sinnum í viku með 4. flokki í FH og ætlar sér stóra hluti á þeim vettvangi í sumar.
Bjarki er til dæmis búinn að lesa ævintýraskáldsöguna Hobbitann, öll þrjú bindi Hringadróttinssögu, allar Eragon-bækurnar, Harry Potter, allar bækur eftir Astrid Lindgren, öll rit um Nicolas Flamel og Þjóðsögur Jóns Árnasonar svo dæmi séu tekin.
Sjá samtal við Bjarka Þór í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.