„Fall WOW er mikið efnahagslegt áfall,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, við mbl.is eftir fund sex verkalýðsfélaga og Samtaka atvinnulífsins í kjaradeilunni hjá ríkissáttasemjara.
Halldór segir að um vinnufund hafi verið að ræða og að vinnan haldi áfram í fyrramálið. Hann býst við því að samningsaðilar fundi alla helgina.
Samningsmenn eru bundnir af fréttabanni ríkissáttasemjara þannig að ekkert fæst uppgefið um efni þeirra hugmynda sem unnið er með.
Spurður hvort eitthvert bakslag hafi komið í samningagerð í kjölfar frétta af WOW air í morgun segir Halldór ekki svo vera en segir afleiðingar falls WOW þegar farnar að sjást:
„Atvinnuleysi mun aukast og við sjáum að afleiðingarnar munu hríslast víða í hagkerfinu eins og við sjáum á mjög sorglegum uppsögnum,“ segir Halldór en Kynnisferðir sögðu til að mynda upp 59 starfsmönnum í dag.
„Verkefnið fer ekki frá okkur. Við þurfum að ljúka gerð kjarasamnings en auðvitað hljóta allir aðilar við samningsborðið að taka þær fréttir sem dynja á okkur núna með reglulegu millibili alvarlega.“