Fulltrúar verkalýðsfélaga og Samtaka atvinnulífsins funda í húsakynnum ríkissáttasemjara en fundurinn hófst klukkan 13.00. Fall flugfélagsins WOW air á ekki að hafa áhrif á fundinn en Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði að brýnt væri að ekki kæmi til átaka.
„Ég held að þessi tíðindi muni hvetja okkur áfram til að klára það verkefni sem við stöndum nú frammi fyrir,“ sagði Ragnar við mbl.is í dag.
Hann sagði að um 250 félagsmenn VR væru starfsmenn WOW air og fall félagsins sé gríðarlegt áfall fyrir VR og vinnumarkaðinn á Íslandi.
Eins og kom fram í gær var fyrirhuguðum verkföllum hótelstarfsfólks og hópbifreiðastjóra aflýst. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði við mbl.is í gærkvöldi að mjög góður grundvöllur hafi myndast á fundi í gær að því að gera kjarasamning.