Nýr tónn á sáttafundum

Eflingarfólk lagði niður störf nýverið og fór í kröfugöngu í …
Eflingarfólk lagði niður störf nýverið og fór í kröfugöngu í miðbænum. Ekki varð af verkfalli í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýr og jákvæðari tónn virðist vera kominn í samningaviðræður samflots sex verkalýðsfélaga og samtaka og Samtaka atvinnulífsins á sáttafundum í Karphúsinu. Samtök atvinnulífsins lögðu fram nýjar hugmyndir á fundi í gær sem forystumenn verkalýðsfélaganna töldu að gætu orðið nýr viðræðugrundvöllur.

Til þess að samningamenn gætu einbeitt sér að samningum næstu daga ákváðu Efling og VR að aflýsa tveggja daga verkfalli á ferðaþjónustufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sem hefjast átti á miðnætti.

Samningamenn eru bundnir af fréttabanni ríkissáttasemjara þannig að ekkert fæst uppgefið um efni þeirra hugmynda sem nú er verið að vinna með.

„Raunverulegur samningsvilji“

Samninganefndirnar hittast klukkan 13 í dag og verður unnið næstu daga og um helgina til að reyna að ná samningum, helst áður en ný verkfallslota hefst. Næsta verkfall verður á mánudag og nær til hluta strætisvagnabílstjóra á höfuðborgarsvæðinu en þriggja daga verkfall Eflingar og VR hjá rútufyrirtækjum og hótelum verður seinni hluta næstu viku.

„Það er vænlegast að fresta öllum verkföllum þannig að ferðaþjónustan geti komist í samt lag og farið að vinna af fullum krafti,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Það er mikilvægt að það komi fram að við hefðum ekki tekið ákvörðun um að aflýsa þessum verkföllum nema vegna þess að við upplifum að það sé raunverulegur samningsvilji fyrir hendi,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags. „Við hefðum ekki farið þessa leið ef við hefðum ekki séð alla vega til sólar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert