„Við vinnum að því að koma öllum strönduðum farþegum heim á lágmarksgjöldum. Það tók okkur smá tíma að bregðast við. Nú er komið form inni á vefsvæðinu okkar sem fólk fyllir út. Þetta er komið í gang og okkar fólk vinnur í að afgreiða þessar óskir. Öll lausu sætin sem við eigum fara í að koma fólki til síns heima,” segir Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair.
Hér á vef Icelandair geta strandaðir flugfarþegar skráð bókunarnúmer sitt
Flugfélagið Icelandair er í Alþjóðasamtökum flugfélaga IATA og efnir skuldbindingar sínar um að koma öllum strönduðum flugfarþegum heim í aðstæðum sem þessum þegar flugfélag hættir skyndilega starfsemi líkt og WOW air gerði í morgun. Flugfélög skuldbinda sig til að gera slíkt í 14 daga eftir fall flugfélaga.
„Þegar fólk skráir sig fáum við upplýsingar um hversu margir þetta eru og hvar. Staðan er sífellt að breytast og við tökum klukkutíma fyrir klukkutíma,“ segir Birna Ósk spurð hvort fleiri flugvélar verði virkjaðar til að koma farþegum til síns heima.
Birna Ósk ítrekar að strandaðir farþegar fái fargjöldin á afslætti. Þegar færri sæti eru eftir í vélunum hækkar verðið í venjulegu flugi en það eigi ekki við um strandaða flugfarþega.
Nú þegar er töluvert bókað í flug með vélum Icelandair og því er viðbúið að fólk þurfi að bíða mesta lagi tvo til þrjá daga þar til það fær flug heim.
„Það eru allir að leggjast á eitt núna og gera hvað þeir geta til að leysa málin,“ segir Birna Ósk.
Birna Ósk reiknar ekki með öðru en að önnur flugfélög sem eru í IATA bjóði einnig strönduðum farþegum fargjöld á afslætti (e. rescue fare).