Skúli var „njörvaður niður“

Skúli Mogensen stofnaði flugfélagið WOW air árið 2012.
Skúli Mogensen stofnaði flugfélagið WOW air árið 2012. mbl.is/Eggert

„Ég trúði því að við myndum ná þessu og við vorum komin langt í viðræðum. Ég ætlaði mér að klára þetta alveg til kl. 7 í morgun,” sagði Skúli Mogensen eigandi WOW air í aukafréttatíma á RÚV í hádeginu

Unnið var að því í alla nótt með nokkrum aðilum að reyna að ná samningum um flugfélagið. En tíminn rann út. „Ég var njörvaður niður í það sæti að sætta mig við þetta,“ sagði Skúli í viðtalinu. Ekki fékkst upp gefið við hverja hann hafi verið að reyna að semja.  

Spurður hvað hafi komið félaginu í þrot sagði Skúli að ekki væri hægt að benda á eitt atriði umfram annað. Flugrekstur væri flókinn og þetta væri samspil margra þátta. Eftir endurskipulagningu í haust hafi félagið náð að rétta úr kútnum og það orðið að lággjaldaflugfélagi aftur. Hins vegar hafi staðan ekki verið orðin nægilega góð. 

„Þegar einn byrjar þá fellur þetta hratt. Menn voru orðnir óþreyjufullir að við kláruðum að endurfjármagna,“ sagði Skúli spurður hvaða atriði hafi orðið til þess að vélarnar hafi verið kyrrsettar. Hann benti á að unnið hafi verið náið með leigusölum um langt skeið og þeir voru orðnir langeygir eftir endurfjármögnun og hefðu ekki getað beðið lengur. 

Skúli sagði það ekki óábyrgt að hafa ekki hætt fyrr í viðræðum. Hann segir það frekar vera óábyrgt að hafa ekki reynt til þrautar og gefist fyrr upp og skilað flugrekstrarleyfinu því mikið var í húfi. 

„Ég er ekki búinn að átta mig á þessu“

„Ég er ekki búinn að átta mig á þessu. Ég er enn í sjokki. Þetta er ekki alveg búið að skila sér inn,“ sagði Skúli spurður hvernig honum liði á þessari stundu. Hann sagði að síðustu vikur hafi verið býsna strembnar og lítið verið sofið síðustu nætur. 

Erfiðast í þessari stöðu hafi verið starfsmannafundurinn þar sem hann greindi frá stöðunni. Hann hafi verið erfiður og þungur. Hann hrósaði starfsfólki sínu í hástert og sagðist vera mest svekktur gagnvart því. „Þetta er ótrúlegur hópur sem hefur unnið vel. Þau hafa haldið haus og haldið uppi WOW-stemningunni. Ég vil koma sérstaklega fram þökkum til þeirra. Þau eru hetjur,“ sagði Skúli og tók það fram að hann myndi vilja vinna aftur með sama hópi.  

„Ég setti aleiguna í þennan rekstur,“ sagði Skúli spurður hvort hann ætti persónulega mikið undir í rekstrinum. Hann gat ekki greint nákvæmlega hversu há sú upphæð var. Spurður hvaða eignir væru til í félaginu sagðist hann ekki vera með það á hreinu.  

 „Nei, ég er ekki búinn að gefast upp. Ég stend hér en þessu verkefni er lokið,“ sagði Skúli. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert