Erlendir fjölmiðlar eru þegar farnir að fjalla um stöðvun WOW air og segir Independent meðal annars að þúsundir farþega félagsins séu strandaglópar vegna þess að WOW air hafi aflýst öllu flugi.
Independent rekur rekstrarsögu WOW og miklar skuldir félagsins. Eins að WOW air hafi í marga mánuði reynt að fá fjárfesta að félaginu án árangurs. Viðræður við Icelandair og Indigo Parters hafi verið árangurslausar.
Einhverjir ferðabloggarar ganga svo langt að segja að sögu WOW air sé væntanlega lokið en WOW air hefur boðað nýjar upplýsingar um stöðu mála klukkan 9. Í tilkynningu frá félaginu segir: „WOW air er á lokametrunum að klára hlutafjáraukningu við nýjan eigendahóp á félaginu. Allt flug hefur verið stöðvað þangað til þeir samningar verða kláraðir. Nánari upplýsingar verða gefnar kl. 9. Félagið þakkar farþegum fyrir stuðninginn og biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta veldur.“
BBC segir að farþegar sem áttu bókað flug með WOW í dag hafi fengið upplýsingar um að flugi þeirra hafi verið aflýst með textaskilaboðum eða tölvupósti í nótt.
WOW air hefur ekki aflýst flugi á morgun aðeins í dag og samkvæmt vef Isavia mun flugvél WOW frá Tenerife lenda á Keflavíkurflugvelli klukkan 2:50 í nótt. Síðasta vél WOW air sem kom til landsins lenti um miðjan dag í gær en sú vél var að koma frá Berlín. Engar vélar WOW hafa farið frá landinu síðan síðdegis í gær.