Var heimilt að fjarlægja verkið

Í svari borgarlögmanns segir að Jón Gnarr hafi engin samskipti …
Í svari borgarlögmanns segir að Jón Gnarr hafi engin samskipti haft við fulltrúa Banksy vegna umrædds verks. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jóni Gnarr var heimilt að fjarlægja verk eftir listamanninn Banksy úr Ráðhúsi Reykjavíkur þegar hann lét af embætti borgarstjóra. Þetta er niðurstaða borgarlögmanns í svari við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samskipti þáverandi borgarstjóra eða annarra starfsmanna Reykjavíkurborgar við fulltrúa listamannsins Banksy og heimild hans til þess að taka verkið með sér að lokinni borgarstjóratíð.

Í svari borgarlögmanns segir að Jón Gnarr hafi engin samskipti haft við fulltrúa Banksy vegna umrædds verks, heldur hafi flokksmaður og borgarfulltrúi Besta flokksins aflað heimildar handa Jóni persónulega til þess að nota stafrænt afrit af mynd eftir listamanninn.

Lyktir samskiptanna hafi verið þær að fulltrúi Banksy hafi sent umræddum flokksmanni Besta flokksins tölvuskeyti með afnotaheimild og stafrænu afriti af verki eftir Banksy. „Nánar tiltekið hafi ekki verið um gjöf að ræða heldur leyfi til að prenta út myndina sem hafi haft afar takmarkað ef eitthvert fjárhagslegt gildi.“

Um var að ræða verk af blómkastaranum eftir Banksy.
Um var að ræða verk af blómkastaranum eftir Banksy. AFP

Samkvæmt heimildum borgarlögmanns kom myndin aldrei til umfjöllunar sem listaverk í eigu Reykjavíkurborgar og í svari safnstjóra Listasafns Reykjavíkur í borgarstjórnartíð Jóns Gnarr vegna fyrirspurnar um málið kemur fram að um persónulega gjöf til Jóns hafi verið að ræða, en ekki gjöf til embættisins.

„Þá þykir nægilega upplýst að um var að ræða heimild sem veitt var Jóni Gnarr persónulega,“ segir í svari borgarlögmanns.

„Í ljósi þess að Reykjavíkurborg eða söfnum borgarinnar var ekki veitt afnotaheimild af stafrænu afriti myndar eftir Banksy, heldur var slík afnotaheimild veitt Jóni Gnarr persónulega verður að telja að hann hafi haft heimild til þess að fjarlægja verkið úr Ráðhúsinu þegar hann lét af embætti borgarstjóra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert