Frjáls verslun með áfengi skjóti skökku við

Miðað við óbreyttar drykkjuvenjur á Norðurlöndunum megi búast við að …
Miðað við óbreyttar drykkjuvenjur á Norðurlöndunum megi búast við að áfengisneysla muni valda 83 þúsund krabbameinstilfellum næstu 30 árin. Ljósmynd/Júlíus Sigurjónsson

Krabbameinsfélag Íslands segir það skjóta skökku við að nú sé til umræðu að leyfa frjálsari verslun með áfengi. „Verði frumvarp sem lagt hefur verið fram á Alþingi samþykkt verður það aðgerð sem vinnur stórlega gegn markmiðum nýsamþykktrar krabbameinsáætlunar,“ segir í yfirlýsingu félagsins.

Þar segir að í lok janúar hafi heilbrigðisráðherra samþykkt tillögur að íslenskri krabbameinsáætlun þar sem fyrsti liður fjallar um aðgerðir til að minnka líkur á krabbameinum.

„Lengi hefur verið vitað að neysla áfengis eykur líkur á krabbameinum í munnholi, koki, barkakýli, vélinda, lifur, brjóstum, ristli og endaþarmi. Áfengi veldur til dæmis 5% brjóstakrabbameina og 3% krabbameina í ristli og endaþarmi á Norðurlöndum.“

Miðað við óbreyttar drykkjuvenjur á Norðurlöndunum megi búast við að áfengisneysla muni valda 83 þúsund krabbameinstilfellum næstu 30 árin. Myndi drykkja minnka og helmingur þeirra sem drekka eitt til fjögur glös af áfengi á dag myndi hætta að drekka áfengi væri hægt að koma í veg fyrir 21.500 tilvik.

„Aftur á móti hefur verið sýnt fram á að þegar sala áfengis er gefin frjáls þá eykst neyslan til muna.“

Í yfirlýsingu Krabbameinsfélagsins segir að ákvarðanir stjórnvalda hljóti alltaf að byggja á helstu þekkingu. „Augljóst er að ekki fer saman að Alþingi leyfi frjálsari verslun með áfengi, sem mun meðal annars fjölga dauðsföllum, sjúkdómum og kostnað í heilbrigðiskerfinu á sama tíma og vinna á eftir nýrri íslenskri krabbameinsáætlun og lýðheilsuáætlunum með forvarnir að leiðarljósi.“

„Stjórnvaldsaðgerðir hafa skipt sköpum í þeim árangri sem Íslendingar hafa náð í tóbaksvörnum og vekur þessi árangur athygli á heimsvísu. Lærum af reynslunni og vinnum að betri lýðheilsu, til dæmis með aðgangstakmörkunum og skattlagningu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert