Hafnar þriðja orkupakkanum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ávarpar flokksráðsfundinn í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ávarpar flokksráðsfundinn í dag. Ljósmynd/Miðflokkurinn

Miðflokkurinn mun leggjast gegn samþykkt þriðja orkupakka Evrópusambandsins. „Flokkurinn samþykkir hvorki afsal á fullveldi Íslendinga yfir orkuauðlindinni né fyrirsjáanlega hækkun á raforkuverði hér á landi,“ segir í stjórnmálaályktun vetrarfundar flokksráðs flokksins sem fram fór að Garðaholti í Garðabæ í dag.

Fram kemur í ályktun þessari að Miðflokkurinn vilji „treysta forræði þjóðarinnar yfir auðlindum sínum“ og því muni hann beita sér gegn samþykkt orkupakkans í þinginu. Í síðustu viku var samþykkt á ríkisstjórnarfundi að leggja tillögu að samþykkt orkupakkans fram, þó með fyrirvara um breytingar á reglum um flutning raforku yfir landamæri.

Stjórnvöld eigi að greiða fyrir kjarasamningum með lægri sköttum

Miðflokkurinn segir brýnt að stjórnvöld „greiði eftir föngum fyrir kjarasamningum.“ Af ályktuninni að lesa vill flokkurinn að skattar séu lækkaðir í þessu skyni. Flokkurinn hafnar því þannig, að hér búi fyrirtæki við lakari skattakjör og hærri fjármagnskostnað en gerist í nágrannalöndum.

Áhersla er þá lögð á lækkun tryggingagjalds hjá launagreiðendum, sem er sagt standa fyrirtækjum fyrir þrifum þegar kemur að fjölgun starfsfólks, hækkun launa og fjárfestingum í þágu aukinnar framleiðni.

Skilyrði fyrir innflutningi á matvælum hert

Miðflokkurinn vill hverfa frá áformum um að leyfa innflutning á ófrosnu kjöti og eggjum frá EES-löndum. „Miðflokkurinn lítur á matvælaframleiðslu íslensk landbúnaðar sem mikilvæga framtíðaratvinnugrein sem verja ber og tryggja vænlegt rekstrarumhverfi,“ segir í ályktuninni.

Þá þurfi einnig að endurskoða tollasamningana sem þegar eru í gildi til þess að tryggja betur stöðu innlendrar framleiðslu, „sem keppir oft við niðurgreidda vöru sem er framleidd við óviðunandi skilyrði.“

Ræðst gegn fjárhag fjölskyldna eins og gráðugt skrímsli

Flokkurinn vill afnema verðtrygginguna. Á meðan það er ekki unnt, fyrir því er ekki þingmeirihluti, segir í ályktuninni að sótt skuli að henni með öllum ráðum, meðal annars með því að taka húsnæðisliðinn út úr vísitöluútreikningum. Þannig sé spornað gegn áhrifum þeirra útreikninga, sem eru sagðir ráðast gegn fjárhag fjölskyldna „eins og gráðugt skrímsli“.

Að lokum er talað um að þjóðin sé að eldast og að mikilvægt sé að bregðast við því, meðal annars með því að bæta hag aldraðra. Það verði gert með því að tryggja að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur og að frítekjumark aldraðra sé hækkað enn frekar, meira en upp í 100.000 krónur. Þetta eigi ekki að kosta ríkissjóð neitt.

Minnst er á fyrirhugaða byggingu höfuðstöðva Landsbankans: „Miðflokkurinn hafnar þeirri fyrirætlan Landsbankans að reisa nýjar höfuðstöðvar af þeirri stærð sem raun ber vitni í stað þess að draga úr yfirbyggingu og lækka kostnað í þágu viðskiptavina bankans.“

Fyrir neðan má hlusta á ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins:

Frá flokksráðsfundinum.
Frá flokksráðsfundinum. Ljósmynd/Miðflokkurinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka