Magnað myndskeið náðist í dag af því er Breiðamerkurjökull kelfdi og flóðbylgja myndaðist. Ferðamenn sem voru í nágrenninu flýttu sér í land, en myndskeiðið hefur farið víða og vakið nokkur viðbrögð.
Stephen Mantler hjá ferðaþjónustutækinu Háfjalli tók myndskeiðið og birti á Facebook og segir hann við Ríkisútvarpið að ferðamennirnir sem sjást hlaupa undan flóðbylgjunni hafi ekki verið hræddir, heldur „miklu frekar mjög spenntir.“
Skiptar skoðanir eru þó um það hversu spennandi þetta er. Ari Trausti Guðmundsson þingmaður Vinstri grænna í Suðurkjördæmi skrifar á Facebook-síðu framboðsins í kjördæminu að þetta sé „mjög alvarlegur atburður“ og að aldrei megi sigla nærri jökli sem kelfir eða ganga og dvelja á strönd „nærri slíkri jökulbrún.“
„Hér vakna margar spurningar (sem og við Fjallsárlón) - um upplýsingagjöf til ferðamanna (almennt og á staðnum), um lokanir/bannsvæði, um landvörslu og fleira,“ skrifar Ari Trausti meðal annars.