„Við þurfum öll að huga að tungumálinu. Við erum ekki einangruð og getum lokað þetta niðri í nokkrum bókum og vonað það besta. Við þurfum að ákveða hvernig við ætlum að nota íslenskuna og hvernig við tökumst á við alla þessa tækni. Viljum við geta talað við þurrkarann okkar og brauðristina á íslensku eða ætlum við að gera það á ensku eða þýsku? Það er erfitt að rífast við brauðrist á þýsku því hún hefur ákveðna yfirburði,“ segir Bragi Valdimar Skúlason íslenskufræðingur kíminn.
Hann er einn af mörgum sem halda erindi á ráðstefnunni „Áfram íslenska - staða og framtíð íslenskukennslu“, sem fram fer í dag kl. 15.30 í Silfurbergi í Hörpu. Streymt verður beint frá ráðstefnunni á Facebook.
Bragi Valdimar er þekktur fyrir dálæti sitt á íslenskri tungu. Hann bendir á að íslenska sé skemmtileg en það virðist stundum gleymast. „Mér finnst leiðinlegt að krökkum finnist íslenska leiðinleg. Íslenska á að vera skemmtileg. Hún er skemmtileg. Við þurfum að skoða hvernig við nálgumst hana. Og skoða hvað það er sem þeim þykir leiðinlegt,“ segir Bragi Valdimar og vísar til titils á erindi sínu „Leiðindamál sem við þurfum að ræða aðeins betur.“
Hann segir flesta hafa gaman af því að nota tungumálið og hafa metnað fyrir því og vonar að það sé ekki að breytast hjá ungu kynslóðinni. Hins vegar eru breyttir tímar í samfélaginu þar sem skjánotkun hefur aukist gífurlega á skömmum tíma og fyrir vikið gefst minni tími til dæmis til að skoða og leika sér með tungumálið, segir Bragi Valdimar.
„Það liggur kannski í því að það er svo mikið áreiti. Fólk hefur takmarkaðan tíma í þetta allt saman. Skjáefni er orðið gott og áhugavert. Tölvuleikir eru stórkostleg fyrirbrigði að mörgu leyti. Við eigum ekki marga þjóðlega leiki ef nokkurn sem fírar upp í tungumálinu. Það eru breyttir tímar,“ segir hann.
Spurður um íslenskukennslu sem hann hefur kynnst í gegnum nám dætra sinna segir hann ekkert upp á hana að klaga. Hann viðurkennir þó að það sé „ekkert brjálaður spenningur“ fyrir orðflokkagreiningu. Hann segir það kannski vera eitthvað sem við þurfum að skoða betur því það er ekki eitthvað sem fólk nýtir sér stanslaust.
Kannski mætti vera meira af því að leika sér að málinu. Fara í orðaleiki og spá og spekúlera í orðunum og velta því upp hvað íslenska sé í raun og veru. „Hvenær verður orð íslenskt og hvenær hættir það að vera íslenskt? Orðabækur eru uppfullar af orðum sem aldrei eru notuð eru þau samt enn þá íslensk þó að þau séu aldrei notuð? Á meðan berjumst við gegn orðum sem vilja vera íslensk eins og t.d. app sem hafa alla burði til að spreyta sig vel í íslensku tungumáli en einhverjir eru að amast við,” segir hann.
Hann segir mikilvægt að fólk hafi skoðanir á tungumálinu og nenni að rífast um það. Það er ákveðið lífsmark og nefnir til samanburðar að fólk rífst ekki mikið um latínu lengur. „Ég hef fulla trú á íslensku. Þetta er tæki sem við notum alla daga og við eigum að nota sem víðast,” segir Bragi Valdimar.
Hann er lunkinn í að koma auga á skemmtilegar og skoplegar hliðar tungumálsins. Það gerir hann einmitt með Björgu Magnúsdóttur í nýjum skemmtiþætti um íslensku sem nefnist Kappsmál og verður sýndur í haust. Þar sýna þau fram á skemmtilegu hliðar tungumálsins. Hann er enginn nýgræðingur þegar kemur að þáttagerð um íslenska tungu en hann og Brynja Þorgeirsdóttir voru umsjónarmenn þáttanna Orðbragðs sem sýndir voru á Rúv.