Fundur verkalýðsfélaga og Samtaka atvinnulífsins er hafinn í húsakynnum ríkissáttasemjara þar sem kjaraviðræður VR, Eflingar, VLFA, VLFG, LÍV og Framsýnar halda áfram.
Fundur stóð yfir fram á ellefta tímann í gærkvöldi í húsnæði ríkissáttasemjara en var þá frestað fram til klukkan hálftíu í dag. Kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins við Eflingu, VR og samflot fjögurra annarra verkalýðsfélaga hafa staðið yfir alla helgina. Fundað var frá hádegi í gær og héldu samningsaðilar þétt að sér spilunum í allan gærdag.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, eftir að um ellefu klukkustunda samningafundi hafði verið frestað, að hann reiknaði með að staðan myndi skýrast í dag.
Auk fundar verkalýðsfélaganna sex sem eru í samfloti í viðræðunum við SA funda iðnaðarmenn einnig með atvinnurekendum síðar í dag. Sá fundur hefst kl. 13.