Í tilefni af því að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann hefur atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, í samstarfi við utanríkisráðuneytið, uppfært spurningar og svör sem lúta að þriðja orkupakkanum.
Þriðji orkupakkinn hefur töluvert verið til umræðu síðustu vikur og mánuði. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi 22. mars að leggja orkupakkann fyrir Alþingi með þeim fyrirvörum að sá hluti er snúi að flutningi raforku yfir landamæri komi ekki til framkvæmda nema með aðkomu Alþingis á nýjan leik.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, lýsti yfir mikilli andstöðu við þriðja orkupakkann á flokksráðsfundi um helgina og sagði hann hættulegan. Með því að samþykkja hann væri Ísland að afsala sér fullveldi sínu.
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð iðnaðarráðherra hefur einnig lagt fram frumvarp sem tengist þriðja orkupakkanum. Þar segir að Alþingi eigi að hafa úrslitavald varðandi ákvörðun hvort tengja eigi raforkukerfi Íslands við kerfi annarra landa.
Almannahagsmunir eigi að vera að leiðarljósi enda sé öll þjóðin hagsmunaaðili.
Spurningar og svör um orkupakkann má skoða hér.