Tæplega 60% Íslendinga eru andvíg innflutningi á hráum eggjum, hráu ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum mjólkurvörum til Íslands. Rúmlega fjórðungur landsmanna er því hlynntur. Þá er rúmlega helmingur Íslendinga hlynntur því að málið verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu, verði frumvarp þessa efnis samþykkt á Alþingi.
Þetta eru niðurstöður skoðanakönnunar sem Gallup vann fyrir Bergþór Ólason, þingmann Miðflokksins, í marsmánuði. 15,2% segjast hvorki hlynnt né andvíg innflutningnum.
Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunarinnar eru yngri svarendur síður líklegir til þess að vera andvígir, en í aldurshópnum 65 ára og eldri eru svarendur líklegastir til þess. Þá eru íbúar í öðrum sveitarfélögum en Reykjavík og nágrannasveitarfélögum líklegastir til að vera því andvígir.
Eftir því sem menntun svarenda eykst, eykst stuðningur við innflutning á hráum eggjum, hráu ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum mjólkurvörum til Íslands, en 68% þeirra sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi eru því andvígir. Þá eru tekjulægri líklegri til þess að vera á móti innflutningnum.
Stuðningsmenn Framsóknarflokksins og Miðflokksins eru afgerandi andvígastir innflutningi, en 75% stuðningsmanna Viðreisnar eru honum hlynntir.
Úrtak fyrir könnunina var 1.421 af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Svarhlutfall var 55%.