Eftir að saman náðist um meginlínur kjarasamninga milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og félaga verslunarmanna og félaga Starfsgreinasambandsins hins vegar er enn eftir eitt mikilvægt atriði. Það er að sjá hvað felst í pakkanum sem stjórnvöld munu kynna fyrir deiluaðilum. Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is.
Í nótt var tilkynnt um að náðst hefði saman um meginlínur kjarasamninganna og var boðuðum verkföllum hjá tilteknum hótelum og hópferðafyrirtækjum. Verkfalli bílstjóra hjá Almenningsvögnum Kynnisferða sem aka á hluta leiða Strætó hefur ekki verið aflýst en forsvarsmenn Eflingar munu funda með starfsmönnum fyrirtækisins klukkan 10 í dag.
Sólveig staðfestir að fulltrúar stjórnvalda og deiluaðila muni funda í húsnæði ríkissáttasemjara klukkan 9. Hún segist enn vera bundin trúnaði vegna fjölmiðlabanns sáttasemjara, en ljóst sé að aðilar hafi náð saman um launaliðinn sem deilt hafi verið um. „Þetta var niðurstaðan, það var ekki lengra komist,“ segir Sólveig.
Hún segir boltann núna vera hjá stjórnvöldum. „Það er mikilvægt atriði eftir sem eru stjórnvöld. Að þau komi til fundar við okkur á eftir og við fáum alvörusvör um hvað felist í þeim pakka sem þau hafa unnið að,“ segir hún. Spurð hvaða væntingar hún hafi til pakkans segir Sólveig að hjá Eflingu hafi verið lögð mest áhersla á skattalækkun fyrir þá sem hafa lægstar tekjur. „Ég bind miklar vonir við að það hafi verið aukið eitthvað í frá því síðast,“ segir hún.
Spurð hvers vegna verkföllum starfsmanna Almenningsvagna Kynnisferða hafi ekki einnig verið aflýst segir Sólveig að þar séu enn ýmis mál sem eigi eftir að ræða við félagsmenn Eflingar hjá fyrirtækinu. Segir hún að séð verði til með framhaldið eftir fundinn klukkan 10 á eftir.