Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, braut ekki siðareglur alþingismanna með ummælum sínum í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 3. desember síðastliðinn að mati forsætisnefndar Alþingis.
Niðurstaða forsætisnefndar er að erindi sem henni barst um meint brot Sigmundar Davíðs gefi ekki nægilegt tilefni til frekari athugunar.
Í erindinu er vísað til þess að Sigmundur Davíð hafi haldið því fram að samtöl af því tagi sem voru hljóðrituð á barnum Klaustri hafi verið alsiða meðal þingmanna allra flokka og að orðbragðið væri stundum „töluvert grófara“. Þingmaðurinn hafi með ummælum sínum brotið gegn hátternisskyldum sínum og þeim meginreglum sem gilda um hátterni alþingismanna samkvæmt 5., 7, og 8. grein siðareglna fyrir alþingismenn.
Fram kemur í niðurstöðu forsætisnefndar að líta verði til þess að ummæli Sigmundar Davíðs fólu í sér andsvör hans við umfjöllun fjölmiðla um það sem kom fram í hljóðupptökunum af Klaustri.
„Þegar það er virt og við hvaða aðstæður þau voru látin falla er ekki unnt að fullyrða að hátterni þingmannsins hafi verið andstætt hátternisskyldum hans, sbr. 7. og 8. gr. siðareglnanna og meginreglum þeirra um hátterni, sbr. 5. og 6. gr. reglnanna. Það er því niðurstaða forsætisnefndar að erindi þitt gefi ekki nægilegt tilefni til frekari athugunar,“ segir í niðurstöðunni. Fram kemur að afskiptum forsætisnefndar af erindinu sé því hér með lokið.