Ætla sér að skrifa undir kl. 15

Stefnt er að undirskrift kjarasamninganna kl. 15 í dag í …
Stefnt er að undirskrift kjarasamninganna kl. 15 í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara. mbl.is/Hari

Stefnt er að því að skrifa undir kjarasamninga á milli Samtaka atvinnulífsins og stéttarfélaga verslunarmanna annars vegar og aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins hins vegar í húsakynnum ríkissáttasemjara kl. 15 í dag. Enn er unnið að því að leggja lokahönd á verkið, að sögn Elísabetar Ólafsdóttur skrifstofustjóra ríkissáttasemjara.

Ekki hafa fengist upplýsingar um það hvenær ríkisstjórnin muni kynna aðkomu sína að kjarasamningunum fyrir almenningi, en eins og kunnugt er stóð til að kynna hana á blaðamannafundi kl. 18:30 í gær, en frá því var svo fallið.

Þó var greint frá ýmsum atriðum sem sögð eru vera í þeim „pakka“ sem stjórnvöld hafa kynnt fyrir deiluaðilum í Kjarnanum í dag.

Fyrst talað um „lífskjarasamninga“ 1985

„Lífskjarasamningurinn“ stóð á stærðarinnar skilti sem sett var upp í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í gærkvöldi fyrir blaðamannafund ríkisstjórnarinnar með samningsaðilum. Ýmsir hnutu eflaust um orðið „lífskjarasamningur“, sem hefur ekki oft heyrst undanfarin ár – en sást fyrst á prenti árið 1985, samkvæmt leit á Tímarit.is.

Úr viðtali við Þröst Ólafsson framkvæmdastjóra Dagsbrúnar í DV 8. …
Úr viðtali við Þröst Ólafsson framkvæmdastjóra Dagsbrúnar í DV 8. nóvember 1985. Skjáskot af Tímarit.is

„Ég vil að verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og ríkisstjórnin semji um svið sem snerta meira lífskjör almennings í heild heldur en bara launin,“ sagði Þröstur Ólafsson, þáverandi framkvæmdastjóri Dagsbrúnar, við DV í nóvember 1985, er hann hafði þá nýlega kynnt hugtakið til sögunnar.

Tillögur Þrastar á þeim tíma lutu að því að samið yrði um hóflegar launahækkanir á almennum vinnumarkaði, en að ríkið stigi inn með ýmsar aðgerðir til þess að tryggja góð lífskjör borgaranna.

Þessar tillögur formgerðust ekki alveg strax, en Þröstur hefur verið nefndur sem „einn helsti hugmyndasmiður Þjóðarsáttarinnar“ sem undirrituð var árið 1990, eftir margra ára baráttu við verðbólgu.

Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, skrifaði um þetta leyti grein í DV um tillögur Þrastar. Hann sagði langa lífsreynslu liggja að baki tillögunum:

„Menn hafa áttað sig á, að engu máli skiptir, hvort laun hækki um 10% eða 100% í kjarasamningum. Það eru önnur atriði en prósentur og krónutölur, sem ráða því, hvort lífskjör fólks batna eða versna. Þröstur nefnir nokkur slík.

Eftir þessa síðbúnu uppgötvun er skammt í, að menn fari að átta sig á, að beztu forsendur bættra lífskjara felast í öflugu og arðbæru atvinnulífi, ríkum fyrirtækjum, sem hafa efni á að borga almennilegt kaup. En vísast þarf meiri lífsreynslu til að átta sig á slíku.“

Fyrirsögn í frétt Morgunblaðsins um umræður á Alþingi 29. janúar …
Fyrirsögn í frétt Morgunblaðsins um umræður á Alþingi 29. janúar 1986. Skjáskot af Tímarit.is

Hvort inntak þeirra „lífskjarasamninga“ sem til stendur að undirrita verði með svipuðum hætti og fram kom í tillögum framkvæmdastjóra Dagsbrúnar frá 1985 sem skreyttar voru sama heiti, verður að koma í ljós í dag. 

Þeir sem við samningaborðið sitja hafa nefnilega haldið spilunum afar þétt að sér hvað varðar nákvæmar tölur um þær kjarabætur sem samist hefur um á milli SA og félaganna, enda í fjölmiðlabanni um efni kjarasamninga þar til þeir hafa verið undirritaðir.

Þó hefur verið talað um það, sem Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði í samtali við mbl.is í morgun, að fall WOW air síðasta fimmtudag hefði breytt forsendum samningaviðræðnanna og má telja líklegt að stéttarfélögin hafi að einhverjum hluta slakað á kröfum sínum varðandi launahækkanir.

Sólveig Anna sagðist samt sem áður telja að samningurinn sem lægi fyrir væri „mjög ásættanlegur“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert