Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Fluglestarinnar – þróunarfélags, segir framkvæmdir við fluglestina mögulega geta hafist 2022. Fall WOW air breyti ekki heildarmyndinni til lengri tíma litið.
„Öll sveitarfélög sem ætlunin er að fluglestin fari um hafa þegar samþykkt samstarfssamning um skipulagsmál nema Hafnarfjörður. Við vonumst til að ná samkomulagi við Hafnarfjörð og eigum á næstunni fund með bæjarstjóranum. Verkefnið er háð því að slíkt samkomulag náist,“ segir Runólfur um stöðu málsins. Ef samþykkið fæst tekur við skipulagsvinna fyrir verkefnið.
„Það er auðvitað mikil vinna. Langdýrasti liðurinn er rannsóknarvinna hér á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að bora töluvert af litlum tilraunaholum og staðreyna jarðlög áður en byrjað er að grafa göng fyrir lest. Menn þurfa að geta lesið sig í gegnum jarðlögin metra fyrir metra. Það skortir heilmiklar rannsóknir á jarðlögum sem kosta sitt. Samhliða þarf að vinna mat á umhverfisáhrifum sem er tveggja ára ferli og forhanna verkefnið til útboðs.“