Spennustig mun stjórna lengd strengs

Stefnt er að því að tengja fyrirhugaða Hvalárvirkjun yfir Ófeigsfjarðarheiði …
Stefnt er að því að tengja fyrirhugaða Hvalárvirkjun yfir Ófeigsfjarðarheiði og í hugsanlegan tengipunkt í Ísafjarðardjúpi og þaðan inn á meginflutningskerfi raforku. mbl.is/Golli

Spennustig mun stjórna því hvort hægt sé að leggja jarðstreng alla leið frá fyrirhugaðri Hvalárvirkjun og í tengipunkt sem áætlaður er í Ísafjarðardjúpi, um 45 kílómetra leið. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri kerfisgreiningu Landsnets sem kom út í dag.

Fyrirtækið Vesturverk, sem hyggst reisa virkjunina í Árneshreppi, hefur óskað eftir því að hún verði tengd flutningskerfinu með jarðstreng yfir Ófeigsfjarðarheiði, m.a. til að lágmarka umhverfisáhrif. Það er hins vegar á valdi Landsnets að ákveða fyrirkomulagið og eru kerfislegir kostir nokkurra leiða til skoðunar í nýrri skýrslu Landsnets.

Ef 66 kílóvolta (kV) strengur yrði fyrir valinu væri hægt að leggja hann alfarið í jörð milli virkjunarinnar og tengipunkts í Djúpinu. Ef valinn yrði 132 kV strengur væri hægt að leggja hann í jörð á 55-67% leiðarinnar. Hærra spennustig er fýsilegri kostur að því leyti að þá tapast mun minni orka, um 0,6 MW á móti um 1,6 MW. Það hefði hins vegar meiri skerðingu óbyggðra víðerna í för með sér þar sem flytja þyrfti rafmagnið um það bil þriðjung leiðarinnar um loftlínu. Þá hefur lagning jarðstrengs á einum stað í kerfinu áhrif á möguleika lagningar á öðrum stað.

Mögulegir tengipunktar í Ísafjarðardjúpi sem verið hafa til skoðunar, auk …
Mögulegir tengipunktar í Ísafjarðardjúpi sem verið hafa til skoðunar, auk annesja- og innfjarðaleiða. Skjáskot úr skýrslu Landsnets

Skýrsla Landsnets sem kom út í dag heitir Tengipunktur við Ísafjarðardjúp og tenging Hvalár en VesturVerk hefur óskað eftir tengingu fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar við flutningskerfið með um 55 MW raforkuframleiðslu. Fleiri virkjanakostir á svæðinu er einnig til skoðunar, m.a. Austurgilsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun.

Í skýrslunni er til skoðunar hugsanlegur nýr tengipunktur við Ísafjarðardjúp og tenging hans yfir Kollafjarðarheiði við meginflutningskerfi raforku í botni Kollafjarðar í Reykhólasveit. Einnig er horft til tengingar tengipunktsins við dreifikerfi raforku á svæðinu og mögulegrar framtíðartengingar vestur til Ísafjarðar og til austurs sem hluta af mögulegri styrkingu flutningskerfisins til Vestfjarða.

Upplýsingar til að auðvelda ákvörðun

Markmiðið með skýrslunni er að leggja fram upplýsingar til að auðvelda endanlegt val á staðsetningu tengipunktsins og að meta mögulegt umfang jarðstrengslagna í þessum tengingum. Í skýrslunni er bent á að þekkt sé hversu kerfislega veikt flutningskerfið á Vestfjörðum er og þar með séu umtalsverðar takmarkanir á möguleikum til jarðstrengslagna fyrir hendi.

Ekki er endanlega búið að ákveða nákvæma staðsetningu á tengipunktinum í Ísafjarðardjúpi, en í skýrslunni er miðað við að hann verði við mynni Miðdals, norðvestan undir Steingrímsfjarðarheiði.

Loftlína um Kollafjarðarheiði

Í greiningunum er gengið er út frá því að öll leiðin frá tengipunktinum í Miðdal suður í Kollafjörð verði loftlína, m.a. vegna stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins og raffræðilegra takmarkana á lagningu jarðstrengja. Talið er að lega þeirrar línu gefi ekki tilefni til að ætla að veðurfarsálag ógni loftlínulausn. Vegna veðurfarsástæðna er á hinn bóginn talið heppilegra að nýta jarðstrengslausnir á norðurhluta tengingarinnar frá tengipunktinum í Miðdal að Hvalá.

Til skoðunar eru síðan tvö spennustig fyrir tenginguna frá Miðdal til fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar, þ.e. 66 kV og 132 kV og greint er fyrir bæði þessi spennustig hverjir verða möguleikar á svæðinu til jarðstrengjalagna.

Yfirlitsmynd af þeim tengingum sem eru til skoðunar.
Yfirlitsmynd af þeim tengingum sem eru til skoðunar. Skjáskot úr skýrslu Landsnets

Mæla með innfjarðarleið

Hvað varðar mögulega tengingu frá fyrirhuguðu tengivirki í Ísafjarðardjúpi til Ísafjarðar eru tvær leiðir skoðaðar: Annesjaleið og innfjarðaleið. Er það niðurstaðan að lágt skammhlaupsafl á svæðinu komi í veg fyrir að unnt sé að fara svokallaða annesjaleið með þeim sæ- og jarðstrengjum sem þyrfti til. Hins vegar sé hægt að fara með háspennulínu innfjarðaleiðina til Ísafjarðar með jarðstrengjum á völdum köflum, samtals um 10 kílómetra af um 70 kílómetra leið.

Komi til tengingar frá tengipunktinum til Ísafjarðarsvæðisins er því í skýrslunni lagt til að miða við innfjarðaleið.

Verulegar kerfislegar takmarkanir

Meginniðurstöður þeirra kerfisgreininga sem greint er frá í skýrslunni eru að sú leið sem lýst er varðandi staðsetningu tengipunkts í Djúpinu og tengingu fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar gengur upp kerfislega. Ljóst er að verulegar kerfislegar takmarkanir til jarðstrengjalagna eru til staðar og hafa mikil áhrif á útfærslur og leiðaval.

Tilkoma tengipunkts í Ísafjarðardjúpi og staðsetning hans (í Miðdal) styður við mögulega framtíðarþróun flutningskerfisins, t.d. tvöföldun tengingar inn á Ísafjarðarsvæðið með tengingu innfjarða. Svigrúm til að leggja hluta af þeirri leið sem jarðstrengi er, að gefnum forsendum, um 15% heildarvegalengdar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert