„Við munum skrifa undir mjög fljótlega en við þurfum að gæta að þess að allt sé frágengið,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, þegar blaðamaður mbl.is náði tali af henni á níunda tímanum í morgun áður en hún gekk inn á fund samninganefnda Samtaka atvinnulífsins og VR, Eflingar, Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélaga Akraness og Grindavíkur.
Eftir viðburðaríkan gærdag ákváðu aðilar vinnumarkaðarins á tólfta tímanum í gærkvöldi, í samráði við ríkissáttasemjara, að samningsaðilar myndu hvíla sig frá fundarhöldum fram til morguns en lokasamningalotan er nú hafin.
Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, og Drífa Snædal, forseti ASÍ, nefndu bæði smáatriði á borð við textavinnu og yfirlestur sem enn ætti eftir að ganga frá, en vildu að öðru leyti ekki tjá sig um viðræðurnar þegar leitað var eftir því. Björn sagði að vísu að ekkert ætti að koma í veg fyrir að gengið yrði frá samningi í dag.
Sólveig Anna segir að í dag standi til að klára þá mikilvægu vinnu sem er eftir. „Það er ýmislegt eftir og við viljum vanda vel til verka og gæta þess að allt sé gert 100%. Við erum að ganga frá samningum fyrir ótrúlega stóran hóp fólks og ég persónulega skil ekki af hverju það verður að ganga frá öllu einn tveir og þrír eftir allan þann mikla tíma og þá miklu vinnu sem hefur átt sér stað,“ segir Sólveig Anna.
Hún efast samt sem áður um hægt verði að skrifa undir samning áður en búið sé að ganga frá öllum smáatriðum.
Hvað innihald samningsins sjálfs snertir segir Sólveig Anna að deiluaðilar hafi þurft að horfast í augu við breyttar aðstæður í efnahagslífinu í kjölfar falls WOW air. „En ég vil líka leggja áherslu á að þetta er engu að síður, að okkar mati, mjög ásættanlegur samningur, það er margt þarna mjög gott og svo þegar við bætum því við sem kemur frá stjórnvöldum höfum við, að mínu mati, með baráttu okkar látið það gerast að hér var sannarlega hlustað í það minnsta á ýmsar kröfur okkar.“
Þegar Sólveig lítur yfir feril kjaraviðræðna síðustu vikna og mánaða segist hún sannfærð um að íslenskt samfélag sé á upphafspunkti nýrrar bylgju stéttabaráttu. „Þetta er fyrsti kaflinn í því og við munum halda áfram á þeirri vegferð í miklum baráttuhug.“