14 tillögur fyrir ungt fólk og tekjulága

Ásmundur Einar Daðason á fundinum í húsnæði Íbúðalánasjóðs.
Ásmundur Einar Daðason á fundinum í húsnæði Íbúðalánasjóðs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfshópur félagsmálaráðherra um lækkun þröskulds ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn hefur lagt fram fjórtán tillögur að bæði nýjum og breyttum úrræðum til að auðvelda þeim að eignast húsnæði.

Tillögurnar, sem voru kynntar á blaðamannafundi í húsnæði Íbúðalánasjóðs, fela meðal í sér startlán þar sem ríkir veitir viðbótarlán með háum veðhlutfölum og hagstæðum vöxtum til afmarkaðra hópa sem eiga erfitt með að eignast húsnæði.

Einnig er lagt til svokallað eiginfjárlán sem sem snýst um að ríkið veiti eiginfjárlán sem geta numið 15 til 20% af kaupverði og eru án afborgana, að því er kemur fram í tilkynningu. 

Starfshópurinn leggur til að tekjulágir geti fullnýtt skattfrjálsan húsnæðissparnað, auk þess sem einnig er lagt til að ráðstafa megi 3,5 prósentustigum lífeyrisiðgjalds skattfrjálst til húsnæðissparnaðar.

Frosti Sigurjónsson, formaður starfshópsins, kynnir tillögurnar fjórtán.
Frosti Sigurjónsson, formaður starfshópsins, kynnir tillögurnar fjórtán. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einnig er lagt til að árleg hámarksráðstöfun verði uppreiknuð og fylgi þróun á verði íbúðarhúsnæðis og að skilyrði um fyrstu kaup verði rýmkað og að skattfrjáls ráðstöfun lífeyrissparnaðar til íbúðakaupa verði einnig í boði fyrir fólk sem hefur áður átt íbúðarhúsnæði.

Á meðal fleiri tillagna er að vaxtabótum verði beint að tekjulægri hópum, hvatar verði til staðar til að draga úr notkun verðtryggðra íbúðalána og að heimilt verði að fresta afborgun af námslánum fyrstu fimm árin eftir kaup á íbúð og/eða fá þegar greiddar afborganir endurlánaðar í tengslum við íbúðakaup.

Frosti Sigurjónsson.
Frosti Sigurjónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einnig er lagt til að afsláttur af stimpilgjaldi við fyrstu kaup verið 200 þúsund krónur, stuðningur við þá sem kjósa að byggja sjálfir verður aukinn og valkostir á mörkum eignar og leigu verði efldir.

Tillögurnar í heild sinni:

  • Tillaga 1 - Startlán. Ríkið veiti viðbótarlán með háum veðhlutföllum og hagstæðum vöxtum til afmarkaðra hópa sem eiga sérstaklega erfitt með að eignast húsnæði. Startlán verði háð því að um hagkvæmt húsnæði sé að ræða sem er í samræmi við þarfir lántaka. Tiltekinn hluti startlána gæti verið tengdur nýjum íbúðum til þess að auka framboð nýs, hagkvæms húsnæðis.
  • Tillaga 2 - Eiginfjárlán. Ríkið veiti eiginfjárlán sem geta numið 15-30% af kaupverði og eru án afborgana. Eiginfjárlán lækka bæði þröskuld útborgunar og greiðslugetu og gætu nýst t.d. þeim hópi sem ekki ræður við greiðslubyrði startlána. Eiginfjárlán verði afmörkuð við hagkvæmt húsnæði og hægt að nota þau til að skapa aukinn hvata til byggingar slíks húsnæðis. Höfuðstóll eiginfjárlána tekur breytingum með markaðsvirði íbúðarinnar. Lánið endurgreiðist við sölu íbúðar eða eftir 25 ár. Lántaki má greiða lánið upp fyrr á matsvirði eða í áföngum og hefur hvata til þess því eftir fimm ár reiknast hóflegir vextir á lánið.
  • Tillaga 3 - Tekjulágir geti fullnýtt skattfrjálsan húsnæðissparnað. Þeim sem ekki ná að fullnýta árlega heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar verði heimilt að leggja meira en 4% af launum skattfrjálst í séreignarsparnað til að nýta hámarksfjárhæðina.
  • Tillaga 4 - Ráðstafa megi einnig 3,5 prósentustigum lífeyrisiðgjalds skattfrjálst til húsnæðissparnaðar. Heimild til ráðstöfunar allt að 6% séreignarsparnaðar skattfrjálst til fyrstu íbúðakaupa verði útvíkkuð þannig að einnig verði heimilt að nýta 3,5 prósentustig iðgjalds lífeyrissparnaðar til íbúðakaupa eða samtals 9,5% af launum.
  • Tillaga 5 - Árleg hámarksráðstöfun verði uppreiknuð og fylgi þróun á verði íbúðarhúsnæðis. Hámarksráðstöfun skattfrjálsrar ráðstöfunar innan hvers árs verði uppreiknuðmeð hliðsjón af þróun íbúðaverðs en það hefur hækkað um 22% frá því fjárhæðin var ákveðin í lögum. Fjárhæðin fylgi framvegis þróun íbúðaverðs.
  • Tillaga 6 - Skilyrði um fyrstu kaup verði rýmkað. Skattfrjáls ráðstöfun lífeyrissparnaðar til íbúðakaupa verði einnig í boði fyrir fólk sem hefur einhvern tímann áður átt íbúðarhúsnæði enda hafi það ekki átt íbúð undanfarin t.d. 2 ár og ekki áður fullnýtt úrræðið.
  • Tillaga 7 - Skilyrði um samfellda nýtingu verði aflétt. Í stað núverandi skilyrðis um samfellda nýtingu séreignasparnaðar verði heimilt að nýta úrræðið yfir 120 mánaða tímabil með hléum.
  • Tillaga 8 - Efla kynningu á úrræðum meðal yngri aldurshópa. Um fimmtungur leigjenda á aldrinum 18-24 ára kveðst hafa lítinn áhuga á að nýta sér skattfrjálsan húsnæðissparnað enda hafði meirihluti þessa hóps ekki kynnt sér úrræðið.
  • Tillaga 9 - Vaxtabótum beint að tekjulægri hópum. Kerfi vaxtabóta verði breytt þannig að vaxtabætur verði fyrst og fremst fyrir afmarkaða félagshópa sem eiga sérstaklega erfitt með að eignast íbúð.
  • Tillaga 10 - Hvatar til að draga úr notkun verðtryggðra íbúðalána. Ofangreind úrræði um startlán, eiginfjárlán, aukna ráðstöfun lífeyrissparnaðar til íbúðakaupa og vaxtabætur geta verið háð skilyrðum um að önnur fjármögnun íbúðarkaupa sé ekki verðtryggð. Mögulegt er að nýta vaxtabætur sem hvata til að draga úr notkun verðtryggingar.
  • Tillaga 11 - Frestun afborgana af námslánum LÍN um fimm ár. Heimilt verði að fresta afborgun af námslánum fyrstu fimm árin eftir kaup á íbúð og/eða fá þegar greiddar afborganir endurlánaðar í tengslum við íbúðakaup. Fyrir hvert ár verði þannig hægt að fresta eða fá endurlánaða allt að 200 þúsund kr. afborgun, samtals allt að 1 mkr á fimm árum.
  • Tillaga 12 - Afsláttur af stimpilgjaldi við fyrstu kaup verði 200 þúsund kr. Í stað lækkunar af stimpilgjaldi (0,4% í stað 0,8%) af kaupverði fyrstu íbúðar verði afslátturinn föst krónutala, 200 þúsund krónur. Með breytingunni yrði stuðningurinn sá sami í krónum talið hvort sem keypt er ódýr eða dýr fyrsta íbúð.
  • Tillaga 13 - Stuðningur við þá sem kjósa að byggja sjálfir. Íbúðalánasjóður yrði miðstöð upplýsinga fyrir húsbyggendur og kæmi í auknum mæli að fjármögnun slíkra verkefna á fyrri byggingarstigum.
  • Tillaga 14 - Valkostir á mörkum eignar og leigu verði efldir. Á meðal þeirra möguleika sem þar koma til greina væri ný löggjöf um blönduð eignarform, aukin uppbygging hagkvæms húsnæðis með búseturétti, kaupleiga innan almenna íbúðakerfisins og meðeign hins opinbera í húsnæði.

Þröskuldurinn of hár

Fram kemur í tilkynningunni að skýrar vísbendingar séu um að þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað sé enn of hár þrátt fyrir að kaupmáttur launa hafi aukist og raunvextir séu lágir í sögulegu samhengi.

Vegna hækkunar íbúðaverðs umfram ráðstöfunartekjur undanfarin ár hafi verið erfiðara að safna fyrir íbúðakaupum.  „Ráðstöfunartekjur ungs fólks hafa hækkað minna en annarra aldurshópa á undanförnum árum og verð lítilla íbúða, sem henta fyrstu kaupendum, hefur hækkað mest,“ segir í tilkynningunni.

„Stór hluti leigjenda vill komast í eigin íbúð en er í raun fastur á leigumarkaði. Hlutfall fólks sem býr í leiguhúsnæði er nú hærra en fyrir áratug síðan og hlutfall lágtekjufólks í þeim hópi hefur farið hækkandi. Langflestir leigjendur segjast myndu kjósa að búa í eigin húsnæði en vísbendingar eru um að það sé óyfirstíganlegur þröskuldur fyrir marga leigjendur að safna eigin fé til íbúðakaupa, meðal annars vegna mikillar hækkunar leiguverðs. Hlutfall fólks á þrítugsaldri sem býr í foreldrahúsum hefur einnig hækkað á undanförnum áratug. Meirihluti þeirra sem hafa keypt sína fyrstu íbúð á undanförnum árum hafa fengið til þess fjárhagslega aðstoð frá ættingum eða vinum.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram kemur að núgildandi úrræði stjórnvalda til að aðstoða ungt fólk og tekjulága til að eignast húsnæði felist einkum í vaxtabótum, skattfrjálsri ráðstöfun séreignarsparnaðar, hærra veðhlutfalli íbúðalána og afslætti af stimpilgjaldi vegna fyrstu kaupa.

Stofnframlög ríkis og sveitarfélaga renni til almennra íbúða, þ.e. leiguíbúða, en lág byrði húsnæðiskostnaðar í slíkum íbúðum auðveldi leigjendum að safna eigin fé til íbúðakaupa. Þá felli bankar niður lántökugjöld vegna fyrstu íbúðakaupa.

„Erlendis hafa verið farnar aðrar leiðir til að aðstoða ungt fólk og tekjulága við að eignast eigið húsnæði. Víða í nágrannalöndunum kemur hið opinbera með beinum hætti að fjármögnun íbúðakaupa, einkum með hagstæðum viðbótarlánum, þ.e. startlánum eða eiginfjárlánum. Mótframlag í húsnæðissparnað, skattaendurgreiðslur og styrkir vegna fyrstu kaupa, ríkisábyrgðir á íbúðalánum til tiltekinna hópa, meðeign ríkisins í íbúðarhúsnæði og víðtækari heimildir til að nota lífeyrissparnað til íbúðakaupa en þekkjast hér á landi eru önnur dæmi um úrræði erlendis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert