Landsréttur hefur fallist á kröfu Jóns Steinars Gunnlaugssonar, um að áminning Lögmannafélags Íslands á hendur honum vegna tölvupósta sem hann sendi Ingimundi Einarssyni, þáverandi dómstjóra í Héraðsdómi Reykjavíkur, verði felld úr gildi. Dómsuppsaga í málinu var kl. 14 í Landsrétti.
Lögmannafélagið þarf að greiða Jóni Steinari allan málskostnað í málinu, bæði fyrir héraði og í Landsrétti, alls 1,2 milljónir króna.
Í dómi Landsréttar segir að ekki sé fyrir hendi „nægilega traust lagaheimild“ fyrir stjórn Lögmannafélags Íslands til að koma fram viðurlögum gegn félagsmanni með því að leggja fram kvörtun fyrir úrskurðarnefnd félagsins.
Lögmannafélagið var sýknað af kröfu Jóns Steinars um að áminning félagsins á hendur honum yrði felld úr gildi í Héraðsdómi Reykjavíkur í júní í fyrra, en Jón Steinar hlaut áminninguna vegna tölvupósta sem hann sendi Ingimundi Einarssyni, þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem hann lýsti óánægju sinni með afgreiðslu Ingimundar á beiðnum hans um flýtimeðferð í tilteknu dómsmáli.
Ingimundi blöskraði orðbragðið í tölvupóstskeytum Jóns Steinars og sendi þau áfram á Lögmannafélagið, sem vísaði því til úrskurðarnefndar lögmanna sem komst að þeirri niðurstöðu að Jón Steinar hefði brotið gegn siðareglum lögmanna með alvarlegum hætti.
Í viðtali við mbl.is eftir sýknudóminn sagði Jón Steinar að dómurinn sannaði það að hann nyti ekki réttaröryggis við íslenska dómstóla á borð við aðra. Í dómi héraðsdóms hafi „með mjög langsóttum hætti“ verið sléttað yfir málsástæður hans. „Dómarinn fer þarna bara í eitthvað ferðalag finnst mér til að skauta yfir mínar málsástæður, þannig að það er öllu hafnað.“