„Ekki verður séð að meðalhófs- eða jafnræðissjónarmið geti almennt leitt til þeirrar niðurstöðu að eigendur verðmætra bifreiða sæti síður upptöku bifreiða sinna en þeir sem verðminni bifreiðar eiga,“ segir í dómi Landsréttar í máli Magnúsar Garðarssonar, sem hefur verið birtur á vef dómstólsins.
Landsréttur féllst á það í dag að rauð Tesla-bifreið hans, árgerð 2015 með einkanúmerið NOC02, yrði gerð varanlega upptæk, eins og greint var frá hér á mbl.is áðan. Ekki var hins vegar fallist á þær kröfur ákæruvaldsins að önnur refsing Magnúsar yrði þyngd.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness í máli hans stendur því óraskaður að öðru leyti, en Magnús var dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ofsaakstur á Reykjanesbraut 20. desember 2016, sem leiddi til áreksturs. Hann olli öðrum manni líkamstjóni, sem samkvæmt réttargæslumanni hans er metið til 10% örorku.
Bifreiðin kostaði 17 milljónir króna er hún var keypt á sínum tíma og sagði Magnús upptökukröfuna vera gríðarlega íþyngjandi. Samkvæmt dómi Landsréttar taldi Magnús að dómurinn ætti að líta til þess hversu dýr Teslan er við ákvörðun sína. Hann bar því einnig við að fyrir þetta slys hefði hann ekki lent í neinu umferðaróhappi síðan hann var 19 ára gamall og að líta ætti til þess.
Það gerði Landsréttur hins vegar ekki. Í niðurstöðu dómsins segir að Magnús hafi lagt „hraðakstur í vana sinn“ og að ökuhraði og aksturslag hans við hættulegar aðstæður í talsverðri umferð 20. desember 2016 hafi verið „svo vítavert“ og hann sýnt af sér „slíkt skeytingarleysi um líf og limi þeirra sem áttu leið um Reykjanesbraut á sama tíma að erfitt hlýtur að vera að finna hliðstæðu“.
Því var fallist á það með ákæruvaldinu að rétt væri að ríkissjóður gerði Tesluna varanlega upptæka, á grundvelli upptökuheimildar umferðarlaga.
„Umrætt ákvæði heimilar upptöku vélknúins ökutækis, sem ökuskírteini þarf til að stjórna og notað er við brot, meðal annars þegar um er að ræða stórfelldan eða ítrekaðan hraðakstur eða akstur sem telst sérlega vítaverður að öðru leyti,“ segir í dómi Landsréttar.
Magnús þarf að greiða alls rúmar 1,5 milljónir króna í málskostnað fyrir Landsrétti.