Þær fjórtán tillögur sem voru kynntar í dag til að auðvelda ungu fólki og tekjulágum að eignast húsnæði eru löngu tímabærar að mati Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR.
Hann segir þær nauðsynlegar til að taka á málefnum jaðarsettra hópa sem hafa ekki lánstraust hjá fjármálastofnunum og ungs fólks sem kemst ekki inn á fasteignamarkaðinn af því að það getur ekki safnað fyrir útborgun, bæði út af háum húsnæðiskostnaði í tengslum við leiguverð og háum fjármagnskostnaði.
„Kjarasamningarnir voru hugsaðir til þess að mynda hvata til vaxtalækkunar sem hjálpar vissulega til. Tillögur frá fyrstu kaupa-hópnum styðja mjög vel við það að banna óhagstæðustu lánin sem eru 40 ára jafngreiðslulánin sem hafa lægstu greiðslubyrðina þannig að þarna er að koma ágætis mótvægisaðgerð frá stjórnvöldum í það sem við erum að gera,“ segir Ragnar Þór við mbl.is og nefnir einnig félagið Blæ sem mun vinna að uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði.
Hann segir núverandi kerfi galið þar sem alltaf séu fundnar leiðir til að niðurgreiða vexti með alls kyns plástrum sem á endanum komi fólki í stórkostleg vandræði. „Við sjáum að þeir lífeyrisþegar sem eru í mjög alvarlegum framfærsluvanda og lifa jafnvel við mjög alvarlega fátækt eru þeir lífeyrisþegar sem hafa ekki náð að eignast húsnæði yfir starfsævina. Aftur á móti þeir sem hafa eignast húsnæði eru bara í allt, allt annarri stöðu,“ nefnir hann.
Ragnar Þór bendir líka á að brottfall af vinnumarkaði tengist líka álagi yfir því að hafa ekki húsnæðisöryggi og geta ekki framfleytt sér vegna alltof hás húsnæðiskostnaðar. Þetta sé eitt af lykilverkefnum verkalýðshreyfingarinnar. Ekki sé nóg að auka kaupmátt með krónutöluhækkunum heldur líka með kostnaðarlækkunum. „Við erum að sjá kulnun í starfi, brottfall á vinnumarkaði er nánast orðið ósjálfsbært til lengri tíma og sjúkrasjóðir stéttarfélaganna eru margir komnir langt yfir greiðslumörk og hafa þurft að skerðast vegna þess að við erum að missa mikið af ungu fólki á langtíma örorku vegna þess að er einfaldlega að gefast upp,“ segir hann.
„Þetta spilar allt saman í því að bæta hér lífskjör almennt til skemmri og lengri tíma. Hérna hafa komið fram frábærar tillögur sem við erum með í okkar kjarasamningum og sem við erum að vinna í líka áfram eins og með tilgreindu séreignina og fleira. Þetta er nánast frágengið hjá aðilum vinnumarkaðarins. Það á bara eftir að koma þessu í gegnum lögin.“
Ragnar heldur áfram og segir gríðarlega mikilvægt að tryggja raunverulegt búsetu- og framfærsluöryggi hér á landi til lengri tíma. Núna viti fólk ekki hvort leigan hækkar um tugi þúsunda þetta árið eða næsta eða jafnvel á hverju ári. Erfitt sé að gera almennileg plön til lengri tíma. „Þarna skiptir máli fyrir samfélagið okkar og fyrir samkeppnishæfni samfélagsins að lífskjör hér séu með sambærilegum hætti og annars staðar þannig að fólk hafi á annað borð áhuga til þess að koma hingað. Ég veit um fullt af fólki sem hefur flúið hér lífskjör, gerði það eftir hrun og vill koma aftur en hefur ekki getu eða áhuga á því vegna þess að óvissan er svo mikil. Húsnæðið er dýrt, leiga er alltof há og búsetuöryggi á leigumarkaði er algjörlega óviðunandi,“ greinir hann frá. Erfitt sé að rífa heila fjölskyldu upp með rótum og ætla að setjast að á Íslandi til langs tíma ef öryggið sé ekki til staðar. „Þarna er verði að tikka í mörg box hjá mjög jaðarsettum hópi í okkar samfélagi sem gríðarlega jákvætt skref.“
Heldurðu að þetta fólk muni snúa aftur á næstunni?
„Ég veit frá fyrstu hendi að staðan á húsnæðismarkaði hefur haft áhrif á það hvort vel menntað fólk hefur verið fráhverft því að snúa til baka og starfa í þessu frábæra landi. Þetta er eitt af forgangsmálum bæði stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar með góðum stuðningi frá Íbúðalánasjóði. Ég myndi segja að þessi vinna sem hefur verið unnin í starfshópnum og núna hérna sé tímamótavinna til þess að fara að snúa þessari þróun við,“ segir hann.