Blaðamaður fékk það mikilvæga hlutverk að fylgja vinkonu út fyrir landsteinana í liðskiptaðgerð, en í heilt ár hafði hún haltrað um, óvinnufær og kvalin. Mjöðmin var ónýt og þurfti hún nýja og eftir að hafa reynt til þrautar að komast í aðgerð sem fyrst á Landspítalanum var ákveðið að halda til Svíþjóðar.
Yrði það greitt að fullu á grundvelli þriggja mánaða reglunnar, þ.e. ef sjúklingur kemst ekki í aðgerð innan þriggja mánaða á hann rétt á að sækja læknisþjónustu í öðru landi innan EES-svæðisins.
Konan, sem ekki vill koma fram undir nafni en kallast hér Anna, hefði að vonum kosið að þurfa ekki að ferðast á milli landa til að fá bót meina sinna. Henni stóð til boða að komast strax í aðgerð á Klíníkinni í Ármúla, en þar hefði hún þurft að greiða úr eigin vasa 1.200.000 kr. þar sem Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki gengið til samninga um slíkar aðgerðir ef biðtími er óeðlilega langur. Í staðinn var ferðinni heitið á einkaspítala í Svíþjóð þar sem aðgerð, auk ferðar, kostar ríkið um tvær milljónir króna.
Það var vel tekið á móti okkur á Capio Movement, einkaspítalanum í miðbæ Halmstad sem sérhæfir sig í bæklunarskurðaðgerðum. Eftir blóðprufur, skoðun og röntgenmyndatöku var aðeins að bíða eftir aðgerðinni. Við hittum skurðlækninn, Johnny Paulsson, og reyndist hann sem betur fer ákaflega traustvekjandi. Hann fullvissaði Önnu um að allt færi vel.
Svæfingalæknirinn var snöggur að leggja mænudeyfinguna á meðan hjúkrunarfræðingur hélt um Önnu. Því næst var hún lögð á hliðina og skorðuð föst með þar til gerðum festingum. Hægri fótleggur, sem var merktur með rauðri ör til öryggis (svo rangur fótur yrði ekki skorinn upp), var því næst hengdur upp og skrúbbaður hátt og lágt. Á þeim tímapunkti og jafnvel nokkru fyrr var Anna farin inn í draumalandið, en hún hafði fengið slævandi lyf í æð.
Næst var fótleggurinn vafinn í grænan dúk og allur líkaminn hulinn að auki, nema sá blettur við mjöðm þar sem átti að skera. Paulsson læknir gekk hreint til verks og var snöggur að skera um 15 sentimetra langan skurð sem náði djúpt í gegnum fituvefinn, já, alveg niður að mjaðmabeini. Á borðum fyrir framan lágu verkfæri af ýmsum toga; hamar, meitill, hnífar, járnstangir, borvél og ég veit ekki hvað. Ef það hefðu ekki verið grænklæddir skurðlæknar þarna hefði mátt halda að við værum stödd á smíðaverkstæði.
Næst hófst vinnan við að komast að mjaðmabeini og saga mjaðmakúluna af. Paulsson sýndi ljósmyndara vel eydda og rennislétta kúluhlið, blóðuga að vísu, enda ekki nema von, nýkomin úr sárinu.
Klukkutíma síðar var búið að koma öllu fyrir á sinn stað og sárinu var lokað; saumað að innan en heftað að utan.
Eftir þrjá daga ákváðum við að flýta fluginu heim, enda Anna nokkuð brött og treysti sér vel í heimferðina. Við pökkuðum saman föggum okkar og brunuðum á Kastrup þar sem Önnu var rúllað um í hjólastól, enda vegalengdir þar allt of miklar fyrir konu með glænýja mjöðm. Fjögurra tíma seinkun var á fluginu, en þar sem íslenska ríkið borgar Saga Class-miða á heimleiðinni gátum við setið í góðum hægindastólum inni á Saga Class-biðstofunni í góðu yfirlæti. Allt gekk upp að lokum og það voru glöð börn sem tóku á móti móður sinni við heimkomuna. Nú, aðeins rúmri viku eftir aðgerð, gengur Anna óstudd um húsið og gamli verkurinn er algjörlega horfinn.
Ítarlega er fjallað um biðlista í liðskiptaaðgerðir í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina og um næstu helgi.