Baldur Arnarson
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir hugmyndir um eiginfjárlán ríkisins til íbúðakaupa verða skoðaðar með lagasetningu í huga. Slík lán geti stutt tekjulága á markaðnum.
Þá verði hugmyndir um ráðstöfun skattfrjáls lífeyrisiðgjalds skoðaðar til að styðja tekjulága og fyrstu kaupendur við kaup á húsnæði. Ráðstöfun séreignar verði mögulega útvíkkuð svo hún nái til fjölmennari hóps.
Starfshópur á vegum ráðherrans hefur skilað 14 tillögum um hvernig lækka megi þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað. Ásmundur Einar segir tvær áðurnefndar tillögur verða útfærðar nánar en hinar 12 skoðaðar betur.
Hann segir aðspurður að markaðurinn hafi brugðist tekjulágum.
Með bættri áætlanagerð á vegum nýrrar húsnæðisstofnunar megi stuðla að betra jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Þá geti stuðningur við íbúðakaup gert mörgum kleift að fara af leigumarkaði.
Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur, segir eiginfjárlán geta hraðað eignamyndun. Þau komi til viðbótar lánum frá banka. Við sölu íbúðar, eða að 25 árum liðnum, sé eiginfjárlánið greitt til baka.
Reynsla Breta af slíkum lánum sé góð og bendi til að þau hafi lítil áhrif á íbúðaverð. Þá sé útfærslan ekki tæknilega flókin og til að mynda vel á færi Íbúðalánasjóðs. 4