Smári McCarthy, þingmaður Pírata, náði þeim áfanga í gær að fljúga sitt fyrsta einflug, en hann hefur lagt stund á flugnám frá því í ágúst sl. í flugskóla flugfélagsins Geirfugls. Takmarkið er að afla einkaflugmannsréttinda, en Smári kveðst vera u.þ.b. hálfnaður með námið. Stefnir hann á að klára það fyrir sumarið.
„Þetta er gamall draumur sem ég ákvað loksins að láta rætast. Ég byrjaði í ágúst, en þetta tók langan tíma í vetur, aðallega vegna veðurs. Síðan reynir maður að gera þetta samhliða þingstörfunum og það er ekki mikill tími,“ segir Smári. „Ég vona að ég nái að klára fyrir sumarið, en það er auðvitað ekkert víst í því. Ég er rétt tæplega hálfnaður,“ segir hann.
Aðspurður segir Smári að áhuginn á flugi hafi aðallega kviknað út frá tvennu. „Annars vegar er það frelsið sem fylgir því að svífa um loftin. Hins vegar er flugið áhugavert út frá tæknilegum nördaskap. Það er heillandi að skilja hvernig þetta gengur upp allt saman, samspilið við náttúruna og allt það,“ segir Smári.
Smári segist munu nýta réttindin með ýmsum hætti í framtíðinni. Hann segir að jafnvel geti einkaflugmannsprófið nýst við þingstörfin. „Einn kostur við þetta er að það verður auðveldara að heimsækja fjarlægari hluta Suðurkjördæmis sem getur tekið sjö tíma að keyra til. Mögulega verður hægt að fljúga þangað,“ segir Smári, en áréttar að flugið sé fyrst og fremst áhugamál. „Ég hef engan áhuga á að vinna við þetta, þannig séð,“ segir hann.
„Ég held það sé gagnlegt að hafa áhugamál sem er allt annars eðlis en þingstörfin. Það hreinsar hugann svolítið að vera í nokkur þúsund feta hæð og þurfa að einbeita sér að því í klukkutíma eða svo,“ segir Smári.