Vegna slyss í fjölskyldunni ákvað Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, að taka sér leyfi frá þingstörfum. Þetta staðfestir Jón Pétursson, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns flokksins, í samtali við mbl.is.
Vangaveltur hafa verið uppi um það hvers vegna Gunnar Bragi ákvað að taka sér leyfi frá störfum og segir Jón að hann hafi fengið að heyra alls kyns furðulegar útgáfur af meintri ástæðu þess að Gunnar Bragi hafi tekið sér leyfi frá þingstörfum.
Hið rétt sé að alvarlegt slys hafi átt sér stað í fjölskyldunni sem tekið hafi mjög á Gunnar Braga. Fyrir vikið hafi hann af þeim sökum ákveðið að taka sér leyfi frá þingstörfum sem og til þess að geta verið til staðar fyrir ástvini sína vegna slyssins.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, staðfestir aðspurður að Gunnar Bragi sé í launuðu veikindaleyfi á grundvelli læknisvottorðs.