Neita greiðsluþátttöku

Ægir Guðni Sigurðsson og Ragnheiður Sveinþórsdóttir, móðir hans. Hún hefur …
Ægir Guðni Sigurðsson og Ragnheiður Sveinþórsdóttir, móðir hans. Hún hefur barist fyrir því að Sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við tannréttingameðferð vegna fæðingargalla en Ægir fæddist með skarð í gómi. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

„Við höfum þurft að borga alla meðferð sonar okkar úr eigin vasa og líka ferðakostnað, en við búum í Vestmannaeyjum,“ sagði Ragnheiður Sveinþórsdóttir, móðir Ægis Guðna Sigurðssonar sem er níu ára.

Hún segir að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) neiti enn greiðsluþátttöku vegna aðgerða til að laga alvarlegan fæðingargalla barna sem fæðast með skarð í gómi. Ragnheiður veit um fjögur íslensk börn sem þurfa meðferð vegna sama fæðingargalla en njóta ekki greiðsluþátttöku SÍ.

Hún sagði að tannréttingameðferð barnanna tæki alls um tíu ár og lyki þegar þau hafa tekið út vöxt við 16-18 ára aldur. Töluvert var fjallað um mál Ægis Guðna og neitun Sjúkratrygginga í fyrra. Málið rataði inn á Alþingi og var greint frá því í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Ragnheiður sagði að sér virtist SÍ ganga þvert gegn vilja Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra. Hún hefði lýst því yfir á Alþingi 17. september 2018 að hún vildi leiðrétta það að börnum væri mismunað eftir því hvort þau fæðast með skarð í vör og/eða gómi. Ráðherrann kvaðst hafa óskað sérstaklega eftir því í ráðuneytinu að gerð yrði breyting á reglugerð í því skyni. Daginn eftir birtist svo frétt á vef ráðuneytisins um endurskoðun reglugerðar til að jafna rétt barna. Ragnheiður sagði að þrátt fyrir það hefði SÍ ekki séð sér fært að taka þátt í lækniskostnaði vegna Ægis Guðna.

„Þetta er farið að horfa þannig við mér að það sé einfaldlega þrjóska og þvermóðska hjá Sjúkratryggingum sem ræður. Þeir hafi ákveðið að þessi börn eigi ekki að vera með vegna þess að það séu ekki öll börn með tannvandamál sem fái greiðsluþátttöku, án tillits til þess hvernig tannvandinn sé til kominn,“ segir Ragnheiður í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert