Innleidd að fullu en gildistöku frestað

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verði stjórnskipulegum fyrirvörum aflétt af hálfu Alþingis á þriðja orkupakka Evrópusambandsins verður reglugerð 713/2009, sem er hluti pakkans, innleidd að fullu í íslenskan rétt en framkvæmd þeirra ákvæða sem varða tengingar yfir landamæri, og ekki er talin eiga við hér á landi á meðan engin slíkt tenging er til staðar, frestast um óákveðinn tíma á meðan þær aðstæður eru fyrir hendi.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í svörum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra við spurningum sem blaðamaður Morgunblaðsins sendi honum vegna þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem ríkisstjórnin hyggst innleiða hér á landi vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Þar segir enn fremur að pakkinn feli ekki í sér neina skyldu fyrir Ísland til þess að leggja sæstreng til Evrópu.

Spurningar Morgunblaðsins og svör utanríkisráðherra fara hér að neðan:

Hvað þýðir það fyrir hin EFTA-ríkin í EES-samstarfinu, þ.e. Noreg og Liechtenstein,  ef Ísland ákveður að innleiða ekki þriðja orkupakkann? Tekur hann þá gildi fyrir hvorugt hinna EFTA-ríkjanna? Hafa Norðmenn og Liechtensteinar ekki samþykkt þriðja orkupakkann? Hafa þeir beitt þrýstingi á að þriðji orkupakkinn verði innleiddur hér?

„Öll EFTA-ríkin þrjú innan EES tóku umrædda ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni nr. 93/2017 með stjórnskipulegum fyrirvara. Bæði Noregur og Liechtenstein hafa þegar aflétt fyrirvaranum af sinni hálfu, Noregur þann 27. apríl 2018 og Liechtenstein 9. maí 2018.  Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekur ekki gildi fyrr en öll EFTA-ríkin innan EES hafa aflétt fyrirvaranum.

Almennt hafa EFTA-ríkin sex mánuði til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara við ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar en ekki er óalgengt að farið sé fram yfir þann frest. Það hefur hins vegar aldrei gerst að EFTA-ríki hafi tilkynnt að fyrirvaranum verði ekki aflétt og að ákvörðunin taki þar með ekki gildi. Þar sem slíkt er fordæmalaust er ekki hægt að fullyrða hverjar afleiðingarnar yrðu. Þó er ljóst að viðkomandi gerð tekur þá ekki gildi gagnvart neinu EFTA-ríkjanna innan EES. Að auki kann slík ákvörðun að hafa í för með sér að framkvæmd gerða í fjórða viðauka EES-samningsins um orkumál verði frestað til bráðabirgða . Slík frestun viðaukans myndi væntanlega gilda fyrir öll EFTA-ríkin innan EES.
Stjórnvöld í Noregi og Liechtenstein hafa ekki beitt Ísland þrýstingi vegna málsins, en þau hafa fylgst með framvindunni.“

Felst einhver fyrirvari í yfirlýsingu þinni og framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn ESB sem var gefin út í mars síðastliðnum?

„Yfirlýsingin undirstrikar sameiginlegan skilning og er því af hálfu framkvæmdastjórnar ESB viðurkenning á þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar fyrirvörum Íslands við innleiðinguna. Þótt yfirlýsingin sé ekki lagalega bindandi hefur hún lagalega þýðingu gagnvart fyrirvaranum, eins og meðal annars Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Skúli Magnússon hafa bent á. Í yfirlýsingunni felst sameiginlegur skilningur íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnar ESB á því að stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, þ.e. þau sem varða grunnvirki og flutning raforku yfir landamæri, hafa hvorki gildi né raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar.“

Felst einhver vörn fyrir íslenska ríkið í yfirlýsingunni ef t.d. erlent fyrirtæki vill leggja sæstreng og fær ekki og fer í mál við íslenska ríkið fyrir EFTA-dómstólnum þess vegna? Mun þessi leið halda að ykkar mati?

„Samkvæmt álitum sérfræðinga sem stjórnvöld hafa leitað til er það alfarið á forræði íslenskra stjórnvalda að ákveða hvort sæstrengur verði lagður.

Má hér m.a. benda á álitsgerðir Skúla Magnússonar, Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, og Davíðs Þórs Björgvinssonar þar sem er áréttað að innleiðing þeirra gerða sem um ræðir myndi ekki skuldbinda íslenska ríkið til að koma á eða leyfa samtengingu íslensks raforkumarkaðar við önnur ríki Evrópska efnahagssvæðisins. Niðurstöður greinargerða Birgis Tjörva Péturssonar og Ólafs Jóhannesar Einarssonar eru á sömu leið. Enn fremur er þessi skilningur undirstrikaður í sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherra og orkumálastjóra Evrópusambandsins.

Svarið er því að sú leið sem lögð er til fær staðist. Upptaka þriðja orkupakkans í EES-samninginn felur ekki í sér neins konar skyldu íslenskra stjórnvalda til að tengjast sameiginlegu raforkukerfi ESB með lagningu sæstrengs eða með öðrum hætti.“

Eru fordæmi fyrir því í EES-samstarfinu að stjórnskipulegum fyrirvara hafi verið aflétt af löggjöf en hún ekki innleidd að fullu í rétt viðkomandi lands, eins og ætlunin er að gera hér?

Verði tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 um þriðja orkupakkann samþykkt er fyrirhugað að innleiða reglugerð (EB) nr. 713/2009 í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti. Það verði þó með lagalegum fyrirvara um að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði hvorki reist né áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni. Þá verði jafnframt tekið enn frekar og sérstaklega til skoðunar á vettvangi Alþingis hvort innleiðing hennar við þær aðstæður samræmist íslenskri stjórnarskrá.

Með öðrum orðum er viðkomandi reglugerð innleidd að fullu en framkvæmd þeirra ákvæða sem varða tengingar yfir landamæri frestast um óákveðinn tíma og fá þau ekki gildi nema þau skilyrði séu uppfyllt sem fyrr greinir.

Samhliða þessu hefur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagt fram frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum og tillögu um breytingu á þingsályktun nr. 26/148 um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Þar er kveðið á um að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Það samþykki skuli liggja fyrir áður en framkvæmdir sem varða slíka tengingu geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar.

Svarið er því að umrædd reglugerð er innleidd að fullu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert