Eðlilegt að menn standi ábyrgir gjörða sinna

Ólína Þorvarðardóttir segir úrskurð kærunefndar jafnréttismála í samræmi við það …
Ólína Þorvarðardóttir segir úrskurð kærunefndar jafnréttismála í samræmi við það sem hún hafði vonast til.

„Ég lýsi ánægju með þennan úrskurð. Þetta er í samræmi við það sem ég hafði vonast til og vænst,“ segir Ólína Kjer­úlf Þor­varðardótt­ir þjóðfræðingur í samtali við mbl.is. Greint var frá því í gær að kærunefnd jafnréttismála hefði komist að þeirri niðurstöðu að Þing­valla­nefnd hefði brotið jafn­rétt­is­lög þegar Ein­ar Á. E. Sæ­mundsen var skipaður þjóðgarðsvörður í októ­ber í fyrra, en val nefndarinnar stóð þá á milli þeirra Einars og Ólínu.

Skip­an Ein­ars í stöðuna olli nokkru ósætti og meðal ann­ars því að Odd­ný G. Harðardótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar og einn þriggja nefndarmana sem studdu ráðningu Ólínu, sagði sig úr Þing­valla­nefnd. Sjálf gagnrýndi Ólína ráðning­una op­in­ber­lega, m.a. í opinni færslu á Facebook.

„Mér blöskraði þetta á sínum tíma og lýsti yfir óánægju með það, vegna þess að maður vill náttúrlega að menn vandi sig í stjórnsýslunni,“ segir Ólína. „Sem umsækjandi á maður að geta treyst því þegar maður býður fram krafta sína, menntun, hæfileika og getu og að maður standi ekki höllum fæti gagnvart kynjafordómum, aldursfordómum og jafnvel pólitík, sem ég hef grun um að hafi jafnvel allt haft áhrif.“

Fékk ekki sanngjarna meðhöndlun

Hennar mat sé að með ráðningu Einars hafi nokkrir þingmenn sem sitja í Þingvallanefnd ákveðið „að hygla tryggum starfsmanni þjóðgarðsins“. „Manni sem þeim er vel við og er í sjálfu sér til alls góðs maklegur. Staðreyndin er hins vegar sú að það var annar umsækjandi sem ég taldi standa honum framar og vinnubrögðin við ráðninguna bentu til þess að sá umsækjandi fengi ekki sanngjarna meðhöndlun og maður getur ekki sætt sig við það ítrekað,“ segir hún.

Kveðst Ólína vera því fegin að hennar sjónarmið í því efni hafi nú hlotið viðurkenningu hjá úrskurðarnefnd jafnréttismála.

Þingvallanefnd­ fund­ar í dag og sagði Vil­hjálm­ur Árna­son vara­formaður nefnd­ar­inn­ar í samtali við mbl.is í gær að hann reikni með því að málið verði þá rætt.

Spurð hvort hún muni taka málið lengra, til að mynda með því að fara fram á bætur, segist Ólína munu ræða við lögmann sinn í dag og þau þá fara betur yfir úrskurðinn og hvað hann þýðir.

„Stjórnsýslunefnd eins og Þingvallanefnd ber hins vegar ábyrgð á gjörðum sínum og það er eðlilegt að menn standi ábyrgir gjörða sinna,“ segir Ólína og bætir við að að hennar mati snúist málið ekki bara um hennar persónu eða hana sem umsækjanda. „Mér finnst ég líka hafa ákveðnar skyldur þegar ég ákvað að kæra þetta mál, fyrir konur í minni stöðu og af mínu kaliberi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert