Arnþrúður þarf að endurgreiða

Deilan sneri að því hvort um hefði verið að ræða …
Deilan sneri að því hvort um hefði verið að ræða lán til Arnþrúðar eða styrk til reksturs Útvarps Sögu. mbl.is/Samsett mynd

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem Guðfinna Aðalheiður Karlsdóttir höfðaði gegn Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra Útvarps Sögu. Arnþrúður þarf að greiða Guðfinnu 3,3 milljónir króna, auk 750.000 króna í málskostnað fyrir Landsrétti.

Í málinu var deilt um hvort þessar 3,3 milljónir króna, sem Guðfinna greiddi inn á persónulegan reikning Arnþrúðar á 12 mánaða tímabili, hefðu verið styrkir til reksturs Útvarps Sögu eða lán til Arnþrúðar. Arnþrúður vildi meina að um styrki hefði verið að ræða.

Guðfinna sagðist hins vegar hafa lánað Arnþrúði fjár­mun­ina í nokkr­um milli­færsl­um á banka­reikn­ing Arnþrúðar á ár­un­um 2016 og 2017. Frá 2017 hafi hún ít­rekað reynt að fá skuld­ina greidda en án ár­ang­ust og fyr­ir vikið þurft að höfða mál til að fá féð til baka.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm sinn í maí síðastliðnum og komst að þeirri niðurstöðu að Arnþrúður hefði ekki sýnt fram á að styrk frá Guðfinnu hefði verið að ræða, en ekki lán.

Mat dómstólsins var að það hefði verið á ábyrgð Arnþrúðar að sanna að um styrk hefði verið að ræða, í ljósi þess hve háar upphæðirnar voru og þar sem að þær voru lagðar inn á persónulegan bankareikning Arnþrúðar en ekki inn á styrktarreikning útvarpsstöðvarinnar.

Því var Arnþrúður dæmd til þess að endurgreiða Guðfinnu 3,3 milljónir og Landsréttur hefur nú staðfest þann dóm.

Dómur Landsréttar í málinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert