Enginn tepruskapur hjá Guðrúnu

Guðný Hallgrímsdóttir
Guðný Hallgrímsdóttir mbl.is/RAX

Varðveist hefur handrit í sjálfsævisögubroti um ævi Guðrúnar Ketilsdóttur sem var vinnukona allt sitt líf. Hún fæddist 1759 og starfaði frá unga aldri á yfir 30 bæjum í Eyjafjarðarsveit. Guðrún segir í ævisögubrotinu á mjög beinskeyttan og einlægan hátt frá lífi sínu, samskiptum við húsbændur og annað fólk, frá áreitni karlmanna og frá hjónabandi með eiginmanni sem var ótrúr.

Einnig segir hún frá því hvernig hún á tímum þegar skepnur og fólk horféll á Íslandi náði þrátt fyrir stétt sína og stöðu að vinna sig upp í góða stöðu og eignast bústofn, hluti og klæði. Eftir skilnað við svikulan eiginmann sem rúði hana inn að skinni var hún á hrakhólum og endaði ævi sína sem niðursetningur.

Guðný Hallgrímsdóttir sagnfræðingur gerði einsögurannsókn á ævi Guðrúnar sem gefin var út á bók árið 2013. Nýlega var bókin gefin út hjá Routledge í Bretlandi á ensku undir titlinum A Tale of a Fool?, en sú bók er miklu ítarlegri og lengri en sú íslenska.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að komast yfir heimildir frá alþýðufólki frá liðnum öldum og sérstaklega heimildir þar sem fólk tjáir sig með eigin orðum, því mjög lítið er til í handritum af slíku efni. Ég þori nánast að fullyrða að ævisaga Guðrúnar Ketilsdóttur sé eitt elsta varðveitta heimild um sjálfstjáningu íslenskrar alþýðukonu. Þegar ég fór að skoða heimildir um fyrri tíma konur á handritadeild Landsbókasafnsins, þá komst ég að því hversu lítið er varðveitt af sjálfstjáningu kvenna og að kvenna er helst getið sem eiginkvenna nafntogaðra karla og heimildir um þær eru iðulega vistaðar undir nöfnum karlanna sem þær tengdust. Rétt eins og það væri nauðsynlegt að réttlæta það að eitthvert ómerkilegt pár frá konum væri varðveitt og skráð sérstaklega. Þetta væru eftir allt saman eiginkonur, dætur eða jafnvel mæður þekktra Íslendinga, mannanna sem skópu söguna. Sú aðferð við skráningu handrita hefur til að mynda leitt til þess að íslenskar konur, og þá einkum og sér í lagi alþýðukonur, eru nánast ósýnilegar í menningarsögu fyrri alda,“ segir Guðný og bætir við að hún hafi einnig orðið undrandi þegar hún sá að konur voru ekki einu sinni nafngreindar sem bændur í bændatölum sem hún skoðaði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert