Hví kólnaði slóð elskhugans?

Boris Quatram rannsakaði Geirfinnsmálið.
Boris Quatram rannsakaði Geirfinnsmálið. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Í lögregluskýrslum kemur fram að eiginkona Geirfinns hafi haldið við annan mann þegar maður hennar hvarf. Þessi maður var aldrei skoðaður sérstaklega og ekki tekin af honum formleg skýrsla.  Mér segir svo hugur að flestir lögreglumenn hefðu gert það, til að eyða allri óvissu. Í svona málum eru elskhugar sjálfsögð slóð að fylgja. Var þetta gáleysi eða vildi einhver halda hlífiskildi yfir þessum manni?“

Þetta segir þýski rannsóknarblaðamaðurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Boris Quatram en glæný heimildarmynd eftir hann í fjórum hlutum, Skandall, kemur í heilu lagi inn í Sjónvarp Símans Premium á þriðjudaginn kemur.

Í lögregluskýrslu, sem Sunnudagsblað Morgunblaðsins hefur undir höndum, kemur meðal annars fram að téður maður hafi komið heim til eiginkonu Geirfinns sunnudagskvöldið 17. nóvember 1974 eftir að Geirfinnur hafði farið á dansleik í Klúbbnum. Mun hann hafa verið hjá henni til kl. 2 um nóttina en þá var von á Geirfinni til baka. Þá mun elskhuginn hafa farið heim til vinkonu eiginkonu Geirfinns.

Geirfinnur hvarf 19. nóvember 1974.

Ómar Ragnarsson fréttamaður, Sævar Ciesielski og fleiri í réttarsal vegna …
Ómar Ragnarsson fréttamaður, Sævar Ciesielski og fleiri í réttarsal vegna Geirfinnsmálsins. Ljósmynd/Emilía Björg Björnsdóttir

Sjálfur stóðst Boris ekki mátið og fór að grennslast fyrir um manninn. Kom þá í ljós að hann hafði flutt af landi brott árið 1976 og ekki snúið aftur. Hófst nú leit að manninum sem eftir japl, jaml og fuður skilaði árangri. Hann fannst í Þýskalandi. Af öllum löndum.

 „Við þurftum að kafa djúpt til að hafa uppi á þessum manni og fá staðfest að þetta væri í raun og veru hann. Leitin var mjög spennandi. Það er mikilvægt að skoða alla fleti og möguleika þegar svona mikið er í húfi og fyrir vikið mátti ég til með að hitta hann. Veit hann eitthvað sem komið gæti að gagni við rannsóknina?“

Maðurinn, sem verður hvorki nafngreindur hér né í myndinni, veitti Boris og Ingvari Þórðarsyni, framleiðanda myndarinnar, áheyrn. „Hann kemur ekki fram í mynd en við heyrum í honum.“

– Og?

„Það er ekki mitt hlutverk sem blaðamanns að bera menn sökum og mögulega kemur ekkert út úr því en nú er boltinn hjá lögreglu. Í ljósi þess hvernig Geirfinnsmálið hefur þróast hlýtur hún að vilja ná tali af þessum manni. Hvort sem hann býr yfir gagnlegum upplýsingum eður ei. Hann hefur aldrei verið yfirheyrður að neinu gagni. Hér er augljóslega um nýja slóð að ræða sem gæti verið tilefni til að opna málið að nýju. Hvort það leiðir síðan til þess að málið leysist er önnur saga.“

Ítarlega er rætt við Boris Quatram í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Boris Quatram ræðir við Erlu Bolladóttur í mynd sinni.
Boris Quatram ræðir við Erlu Bolladóttur í mynd sinni. Stilla
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert