„Æskilegast væri að útrýma minknum og ég held að allir séu sammála því að það væri gott ef það væri mögulegt og kostaði ekki brjálæðislega mikið. Sparnaður yrði af því til framtíðar en miðað við núverandi veiðiaðferðir er það frekar fjarlægur draumur,“ segir Róbert A. Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, um minkastofninn.
Róbert tekur undir orð Snorra Rafnssonar um að efla þurfi veiðar á mink því hann veldur skaða í náttúrunni. Hann segir ýmislegt hægt að gera til að bæta árangur minkaveiðanna. Eitt af því væri meira samtal milli vísindamanna, stjórnvalda og veiðimanna. „Það þarf að hlusta meira á veiðimennina. Þeir eru sérfræðingar í því sem þeir eru að gera. Þetta eru sérhæfðar veiðar og margir búa yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu. Það á að nýta það,“ segir Róbert.
Minkur er framandi og ágeng tegund og raunar ein af verstu ágengu tegundum Evrópu. Það þýðir að vegna aðildar Íslendinga að samningnum um líffræðilega fjölbreytni, þá ber stjórnvöldum að grípa til aðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum tegundarinnar.
Á næstunni þarf Náttúrustofa Vesturlands á liðsstyrk minkaveiðimanna að halda því á stofnuninni er hafin rannsókn og vöktun á minkum. Hinn 5. apríl síðastliðinn skrifuðu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Róbert A. Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, undir samning þess efnis.
Markmið samningsins er að afla og vinna úr vísindalegum gögnum um mink í náttúru landsins, sem m.a. má nýta til að styðja við bætt skipulag og framkvæmd minkaveiða. Í þessari rannsókn verða ekki skoðuð áhrif minksins á íslenska náttúru heldur verður sjónum beint að minkastofninum sjálfum. Minkaveiðimenn á öllu landinu verða beðnir um að senda afla sinn til rannsókna á Náttúrustofunni, þar sem gerðar verða mælingar á hverju dýri og sýni tekin til frekari rannsókna.
„Við reynum til dæmis að leita skýringa á því hvers vegna stofninn virðist sveiflast mikið og hvaða þættir stjórni því. Frjósemi og líkamsástand hans verður meðal annars skoðað,“ segir Róbert. Hann bindur vonir við að þetta verkefni muni auka skilning á minkastofninum sem verði til þess að hægt verði að ráða betur niðurlögum hans.
Undir sveitarfélögunum komið
Sveitarfélögum er í sjálfsvald sett hvað þau verja miklum fjármunum til minkaveiða. Eins og staðan er núna er engin yfirstjórn á minkaveiðunum því hún ræðst af áhuga stjórnenda sveitarfélaganna og hagsmunum þeirra og inn í þetta spilar einnig framboð af áhugasömum minkaveiðimönnum í nágrenninu. Hagsmunir eins og mikilvægar veiðiár, vötn og æðarvarp ýtir undir áhuga á veiðunum.
„Það er galli að sveitarfélög sinna þessu misvel. Það er engin samhæfing í kerfinu yfir stærri svæði og það hefur skort,” segir Róbert. Hann bendir á að til dæmis getur eitt sveitarfélag sinnt þessu vel en ef það næsta gerir það ekki þá færa minkarnir sig á milli.
„Það þarf að vera vilji til að bæta kerfið. Eins og það er í dag er lítið greitt fyrir minkaveiðar. Menn sem standa í þessu gera þetta meira af hugsjón. Lág verðlaun eru fyrir hvern veiddan mink og tímakaupið er mjög lágt. Hættan er að þessar veiðar detti upp fyrir,“ segir Róbert og bætir við „mér finnst minkaveiðimenn ekki hafa notið skilnings“.
Hann telur líklegt að minkaveiðar hafi lagst af á sumum svæðum. Minkurinn er veiddur í gildrur, með hundum og skotinn af veiðimönnum. Minkaveiði með hundum hefur snarminnkað en til að viðhalda góðum minkaveiðihundi þarf tíma, orku og góða aðstöðu. „Góðir minkaveiðihundar eru mjög dýrmætir en í dag eiga frekar fáir slíka,“ segir Róbert. Á árum áður var veiðistjóraembættið með minkahundabú sem menn gátu fengið lánaða til að veiða. Þetta fyrirkomulag hafi smám saman lagst af.
Minkaveiðitímabilið er allt árið en mesta veiðin fer fram í apríl og maí. Á síðustu árum hefur veiði á öðrum árstímum aukist.. Rannsókninni er ætlað að bæta þekkinguna á íslenska minkastofninum og verður vonandi hægt að nýta til að auka árangur veiða. Verkefnið er til tveggja ára en fyrstu niðurstaðna er að vænta næsta vor.