„Æskilegast væri að útrýma minknum“

Minkur við veiðiá.
Minkur við veiðiá. mbl.is/Golli

„Æskileg­ast væri að út­rýma minkn­um og ég held að all­ir séu sam­mála því að það væri gott ef það væri mögulegt og kostaði ekki brjálæðis­lega mikið. Sparnaður yrði af því til framtíðar en miðað við nú­ver­andi veiðiaðferðir er það frek­ar fjar­læg­ur draum­ur,“ seg­ir  Ró­bert A. Stef­áns­son, for­stöðumaður Nátt­úru­stofu Vest­ur­lands, um minka­stofn­inn.

Ró­bert tek­ur und­ir orð Snorra Rafns­son­ar um að efla þurfi veiðar á mink því hann veld­ur skaða í nátt­úr­unni. Hann seg­ir ým­is­legt hægt að gera til að bæta ár­ang­ur minka­veiðanna. Eitt af því væri meira sam­tal milli vís­inda­manna, stjórn­valda og veiðimanna. „Það þarf að hlusta meira á veiðimenn­ina. Þeir eru sér­fræðing­ar í því sem þeir eru að gera. Þetta eru sér­hæfðar veiðar og marg­ir búa yfir gríðarlegri þekk­ingu og reynslu. Það á að nýta það,“ seg­ir Ró­bert.

Minkur er framandi og ágeng tegund og raunar ein af verstu ágengu tegundum Evrópu. Það þýðir að vegna aðildar Íslendinga að samningnum um líffræðilega fjölbreytni, þá ber stjórnvöldum að grípa til aðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum tegundarinnar. 

Á næst­unni þarf Nátt­úru­stofa Vest­ur­lands á liðsstyrk minka­veiðimanna að halda því á stofn­un­inni er haf­in rann­sókn og vökt­un á mink­um. Hinn 5. apríl síðastliðinn skrifuðu Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, um­hverf­is- og auðlindaráðherra, og Ró­bert A. Stef­áns­son, for­stöðumaður Nátt­úru­stofu Vest­ur­lands, und­ir samn­ing þess efn­is.    

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Róbert A. Stefánsson …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Róbert A. Stefánsson forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands. Ljósmynd/Náttúrustofa Vesturlands

Mark­mið samn­ings­ins er að afla og vinna úr vís­inda­leg­um gögn­um um mink í nátt­úru lands­ins, sem m.a. má nýta til að styðja við bætt skipu­lag og fram­kvæmd minka­veiða. Í þess­ari rann­sókn verða ekki skoðuð áhrif minks­ins á ís­lenska nátt­úru held­ur verður sjónum beint að minkastofninum sjálfum. Minka­veiðimenn á öllu land­inu verða beðnir um að senda afla sinn til rann­sókna á Nátt­úru­stof­unni, þar sem gerðar verða mælingar á hverju dýri og sýni tekin til frekari rannsókna.

„Við reyn­um til dæm­is að leita skýr­inga á því hvers vegna stofn­inn virðist sveifl­ast mikið og hvaða þætt­ir stjórni því. Frjó­semi og lík­ams­ástand hans verður meðal ann­ars skoðað,“ seg­ir Ró­bert. Hann bind­ur von­ir við að þetta verk­efni muni auka skiln­ing á minka­stofn­in­um sem verði til þess að hægt verði að ráða bet­ur niður­lög­um hans.  

Und­ir sveit­ar­fé­lög­un­um komið

Sveit­ar­fé­lög­um er í sjálfs­vald sett hvað þau verja mikl­um fjár­mun­um til minka­veiða. Eins og staðan er núna er eng­in yfirstjórn á minka­veiðunum því hún ræðst af áhuga stjórn­enda sveit­ar­fé­lag­anna og hags­mun­um þeirra og inn í þetta spil­ar einnig fram­boð af áhuga­söm­um minka­veiðimönn­um í ná­grenn­inu. Hags­mun­ir eins og mik­il­væg­ar veiðiár, vötn og æðar­varp ýtir und­ir áhuga á veiðunum.

„Það er galli að sveit­ar­fé­lög sinna þessu mis­vel. Það er eng­in sam­hæf­ing í kerf­inu yfir stærri svæði og það hef­ur skort,” seg­ir Ró­bert. Hann bend­ir á að til dæm­is get­ur eitt sveit­ar­fé­lag sinnt þessu vel en ef það næsta ger­ir það ekki þá færa mink­arn­ir sig á milli.  

„Það þarf að vera vilji til að bæta kerfið. Eins og það er í dag er lítið greitt fyr­ir minka­veiðar. Menn sem standa í þessu gera þetta meira af hug­sjón. Lág verðlaun eru fyr­ir hvern veidd­an mink og tíma­kaupið er mjög lágt. Hætt­an er að þess­ar veiðar detti upp fyr­ir,“ seg­ir Ró­bert og bæt­ir við „mér finnst minka­veiðimenn ekki hafa notið skiln­ings“.  

Minkurinn var fluttur fyrst inn til landsins árið 1931. Minkar …
Minkurinn var fluttur fyrst inn til landsins árið 1931. Minkar í minkabúi, mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Góðir minkaveiðihundar eru „dýr­mæt­ir“ 

Hann tel­ur lík­legt að minka­veiðar hafi lagst af á sum­um svæðum. Minkur­inn er veidd­ur í gildr­ur, með hund­um og skot­inn af veiðimönn­um. Minka­veiði með hund­um hef­ur snar­minnkað en til að viðhalda góðum minka­veiðihundi þarf tíma, orku og góða aðstöðu. „Góðir minka­veiðihund­ar eru mjög dýr­mæt­ir en í dag eiga frek­ar fáir slíka,“ seg­ir Ró­bert. Á árum áður var veiðistjóra­embættið með minka­hunda­bú sem menn gátu fengið lánaða til að veiða. Þetta fyr­ir­komu­lag hafi smám sam­an lagst af.  

Minka­veiðitíma­bilið er allt árið en mesta veiðin fer fram í apríl og maí. Á síðustu árum hef­ur veiði á öðrum árstímum auk­ist.. Rann­sókn­inni er ætlað að bæta þekkinguna á íslenska minkastofninum og verður vonandi hægt að nýta til að auka árangur veiða. Verk­efnið er til tveggja ára en fyrstu niðurstaðna er að vænta næsta vor.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert