„Þó nokkur áhugi til staðar“

Skjáskot af síðunni hluthafi.com.
Skjáskot af síðunni hluthafi.com. Skjáskot

Guðmundur Yngvason, verkefnastjóri hjá Sólhúsum ehf., kveðst vongóður um að nægur áhugi sé fyrir áskrift svo að stofnað verði félag um lággjaldaflugfélag sem fjallað er um á vefsíðunni hluthafi.com. Fram kemur á síðu hluthafa.com að umsjónarmaður síðunnar sé Friðrik Atli Guðmundsson.

„Sólhús er verndari og kostar áhugahópinn, þ.e.a.s. þennan hóp sem kemur t.d. að gerð þessarar heimasíðu,“ segir Guðmundur og tekur fram að ekki sé sóst eftir stjórnarsetu í nýju félagi, heldur styðji hann aðeins við framtakið.

Félagið ekki verið stofnað enn

Hann segir Sólhús reiða sig á flugsamgöngur að miklu leyti, en félagið er stofnað árið 2003 og er byggingar- og leigufélag. „Í kreppunni þurftum við að starfa mikið erlendis og fljúga á milli með okkar starfsfólk o.fl. Okkur líst ekki á stöðu mála. Þótt það fljúgi mörg félög hingað, þá fljúga þau aðallega á sumrin og þegar mestu álagspunktar eru. Við sjáum fyrir okkur aukinn kostnað í tengslum við flugfargjöld heldur en hingað til ef við njótum ekki samkeppni á flugmarkaði,“ segir hann.

Guðmundur segir mikilvægt að leiðrétta ákveðinn misskilning varðandi framtakið sem hann hafi haft veður af. „Undanfari stofnunar á félögum er viðskiptahugmynd. Í þessu tilviki er talað um að endurreisa gamalt félag sem varð gjaldþrota eða stofna nýtt. Það kemur nánar fram á síðunni á hverju hún byggir. Það er mikilvægt að átta sig á því að það hefur ekki verið stofnað félag enn og þeir aðilar sem skrá sig á síðunni yrðu stofnendur að nýju félagi. Þar yrði svo kosin stjórn af hluthöfum hins nýja félags o.s.frv. sem verður okkur óviðkomandi,“ segir Guðmundur.

„Þetta er almenningshlutafélag sem þýðir að öllum býðst að vera þátttakendur, en þó er það skilyrði sett að það verður að vera hægt að stofna nýtt flugfélag eða að endurreisa það gamla. Ekkert hlutafé verður innheimt nema að undangengnu því að vilji sé fyrir því hjá stofnendum félagsins þegar stofnfundur verður haldinn,“ segir Guðmundur.

Ekki ljóst með fjölda áskrifenda enn

Aðspurður kveðst Guðmundur ekki geta upplýst um fjölda áskrifenda sem sýnt hafi áhuga, en hann gerir ráð fyrir því að þó nokkur áhugi sé til staðar. „Ég geri ráð fyrir því að það sé til staðar nægur markhópur sem hafi áhuga á þessu,“ segir hann.

Á vef hluthafa.com kemur fram að vonir standi til að safna 10 til 20 þúsund hluthöfum í almenningshlutafélagið sem myndi þá fjárfesta í nýju lággjaldaflugfélagi. Spurður hvort hann sé vongóður um að þessi fjöldi náist, segir Guðmundur að það fari að miklu leyti eftir því hvernig málið mælist fyrir og hver fjölmiðlaumfjöllun um málið verður. Hann nefnir einnig að einhverjir gætu haft hagsmuni af því að hluthafa.com takist ekki ætlunarverkið.

Hagsmunir hluthafanna ráði för

Á vef hluthafa.com eru tveir kostir nefndir í dæmaskyni. Annar að stofnað verði nýtt lággjaldaflugfélag í eigu almennings, takist ekki að endurreisa WOW air. Hins vegar að þeir sem leggi málefninu lið eignist hlut í nýju lággjaldaflugfélagi. Guðmundur segir að það fari allt eftir hagsmunum hluthafa hvað gert verði, safnist nægir fjármunir.

„Ef það verður til almenningshlutafélag, þá ber stjórn þess að gæta að hagsmunum hluthafanna. Þá verður að skoða viðskiptaáætlunina hjá hinum nýja rekstraraðila og meta hvort hún sé besti kosturinn á þeim tímapunkti. Síðan er auðvitað gert ráð fyrir því að fleiri kostir verði skoðaðir. Stjórninni ber skylda til að velja þann kost sem verður hagstæðastur fyrir félagið og verndar hluthafa,“ segir Guðmundur. Hann nefnir til viðbótar að aðilar í ferðaþjónustu víðs vegar um landið hafi sýnt verkefninu áhuga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert