Sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður var sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi í Héraðsdómi Reykjaness á miðvikudaginn í síðustu viku. Eiginkona hans kom fyrir dóminn og naut aðstoðar túlks við að lýsa því yfir að hún hefði ekki greint rétt frá atvikum málsins fram að þessu og hefði hug á því að draga kæru sína í málinu til baka.

Henni var þá tjáð að það væri ekki hægt, en þá sagðist hún ekki vilja ræða málið frekar, þetta hefi verið erfiður tími fyrir hana og eiginmann hennar, þar sem þau hefðu bæði gert mistök sem þau hefðu lært af.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa, 7. janúar 2017, kýlt konuna nokkrum höggum með krepptum hnefa í andlit og rifið í hár hennar, þannig að hún flúði út á svalir íbúðar þeirra, sem eru á þriðju hæð og hékk þar þar til að nágranni á hæðinni fyrir neðan greip í hana og kippti henni inn á sínar svalir. Konan hlaut bólgur og hruflur við hægra auga og mjög bólgið hægra hné, eftir fall á svalirnar fyrir neðan. Konan tilkynnti um þetta og kærði eiginmann sinn eftir atvikið og var maðurinn handtekinn.

Konan fór síðar fram á nálgunarbann gagnvart manninum, sem var í gildi til 3. júlí 2017, auk þess sem hann sætti brottvísun af heimili þeirra í sjö mánuði eftir atvikið, að því er fram kemur í dómnum. Þau búa þó saman í dag.

Nágranninn, sem hjálpaði konunni inn á svalirnar á 2. hæð, lýsti því í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði setið heima með fjölskyldu sinni er hann heyrði öskur, líkt og væri verið að meiða einhvern. Hann hafi þá litið út og séð konuna hanga niður af svölunum fyrir ofan. Hann sagðist hafa gripið um fætur hennar og dregið hana inn á svalirnar og að hún hefði sýnilega verið í miklu uppnámi, en síðan farið úr íbúð hans. Ákærði í málinu hefði svo komið að leita að konu sinni, verið bæði reiður og ógnandi að sjá og megn áfengisþefur hefði verið af honum.

Læknir sagði konuna hafa óttast um líf sitt

Lögreglumenn sem töluðu við konuna eftir að hún kom á lögreglustöð og kærði eiginmann sinn sögðu báðir fyrir dómi að hún hefði verið í miklu uppnámi. Hið sama sagði læknir sem tók á móti konunni á sjúkrahúsi HSS eftir atvikið.

Læknirinn kvaðst muna hversu hrædd konan hefði verið og að hún hefði lýst því fyrir honum að hún óttaðist um líf sitt og þess vegna kastað sér fram af svölunum. Læknirinn gat fyrir dómi ekki útilokað að áverkarnir sem konan hlaut, þar á meðal á gagnauga, hefðu komið til við fall niður af svölunum.

Ákærði í málinu neitaði því að hafa lagt hendur á konu sína, en sagði þau hafa verið að rífast og hún hlaupið út á svalir og ætlað að stökkva niður. Hann hefði þá farið á eftir henni og gripið í jakka hennar og haldið henni þannig í nokkra stund áður en nágranninn kom aðvífandi og togaði hana inn á neðri svalirnar. Hann sagðist telja að allir áverkar konunnar stöfuðu af því að hún hefði hangið utan á svölunum.

Mat dómara við Héraðsdóm Reykjaness var að þar sem konan hefði breytt framburði sínum fyrir dómi og engir aðrir sjónarvottar væru að því ofbeldi sem lýst er í ákæru, auk þess sem ekki væri hægt að útiloka að áverkar hennar hefðu einungis stafað af því að fara fram af svölunum, þætti sekt mannsins ekki nægilega sönnuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert